Nýr og spennandi fótboltagolfvöllur fyrir alla fjölskylduna

Sveinbjörn Jón Ásgrímsson við fótboltagolfvöllinn
Sveinbjörn Jón Ásgrímsson við fótboltagolfvöllinn
Fótboltagolfvöllur hefur verið opnaður í Þorlákshöfn, fyrsti sinnar tegundar á landinu.
Fótboltagolfvöllur hefur verið opnaður í Þorlákshöfn, fyrsti sinnar tegundar á landinu.

Sveinbjörn Jón Ásgrímsson og Dagbjört Hannesdóttir sem reka saman fyrirtækið Ölfussport í Þorlákshöfn eru frumkvöðlar verkefnisins og sóttu um landsvæði undir völlinn hjá Sveitarfélaginu. Undirtektir voru jákvæðar og völlurinn staðsettur út í nesi í Þorlákshöfn rétt hjá vitanum. Gaman er að geta þess að unnið hefur verið að þessari hugmynd í mörg ár og því gaman að hún sé orðin að veruleika í dag.

Fyrirmyndin að fótboltagolfvellinum í Þorlákshöfn eru fótboltagolfvellir í Danmörku, en í Danmörku eru 60 slíkir vellir um allt landið. Völlurinn í Þorlákshöfn er þó ekki nákvæm eftirlíking dönsku vallanna eins og hugmyndin var í upphafi. Völlurinn er ólíkur öllum öðrum sem finnast í heiminum vegna þess að landsvæðið er annarskonar og það þarf að hanna völlinn út frá því. Sveinbjörn hannaði völlinn sjálfur og lagði brautirnar.

Keppt er á svona völlum erlendis og eru þar m.a. haldin Evrópumeistaramót, Heimsmeistaramót og Landsmót. Ölfussport í Þorlákshöfn ætlar að standa fyrir mótum og verða þau auglýst síðar.  Þessi fjöldi móta erlendis bendir til að vinsældir íþróttarinnar séu að færast í aukana en einnig sýnir það sig í aukningu á völlum eins og í Danmörku.  Tíminn mun leiða í ljós hvort þetta verður vinsæl íþrótt hérlendis og verður þá gaman ef búnir verði til fleiri vellir hérlendis.

En verður gert meira úr vellinum í framtíðinni? Sveinbjörn segir að ,,það kemur bara í ljós þegar kemur meiri reynsla á völlinn og hvernig fólk nýtir sér hann.“   Tekið verður á móti hópum á og eru hópar strax farnir að bóka enda eru margir forvitnir og fyrirspurninr um hvað þetta sé. Einnig verður tekið á móti hópum sem panta völlinn fyrir ákveðin samkvæmi eins og t.d gæsa eða- steggjapartý. Sveinbjörn segir einnig að fólk þurfi ekki endilega að finnast fótbolti eða golf skemmtilegar íþróttir til að prófa þetta, menn þurfa einfaldlega að upplifa þetta á eigin skinni.

„Þú þarft ekki að eiga fótbolta, því um leið og þú borgar þig inn á völlinn máttu ráða hvort þú notar þinn eigin bolta eða fá lánaðan en mikilvægt er að skila öllum lánsboltum.“

Í lokin bendir Sveinbjörn á að fótboltagolf er afþreying sem hentar fólki á öllum aldri og er um leið góð útivera. Hægt er að panta tíma á völlinn í íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn eða hjá Sveinbirni í síma 899 0452. Verðið er sanngjarnt og verður hópaafsláttur eftir samkomulagi. Því er um að gera að taka vinina eða fjölskylduna með og fara út á völl að prófa.

 

Hákon Svavarsson, sumarstarfsmaður á Bæjarbókasafni Ölfuss 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?