Nýtt miðakerfi á gámasvæðinu.

Kæru íbúar Ölfuss.

Í kjölfar umræðu sem skapast hefur vegna nýs miðakerfis á gámasvæðinu, sem fyrirhugað er að taka upp frá og með áramótum, tel ég nauðsynlegt að nefna nokkur atriði er snúa að því máli.

Rökin fyrir því að taka upp þetta miðakerfi er að minnka kostnað okkar íbúa við gámasvæðið. Þetta er gert til að við, íbúar Ölfuss, séum ekki að borga fyrir úrgang frá aðilum utan okkar sveitarfélags, en það hefur borið töluvert á því að aðilar frá nágrannasveitarfélögum komi hér og losi úrgang. Einnig er það þannig að ef verið er að taka í gegn heilu húsin og henda innréttingum, gólfefnum og öðru, þá hefur það verið sveitarfélagið (við íbúarnir) sem borgar á endanum fyrir það sorp. En með nýju kerfi þá höfum við kost á að henda slíkum úrgangi með því að nota miðana en þegar þeir klárast þá þarf að borga.  Takið eftir hér er ekki verið að ræða venjulegar ferðir á gámasvæðið þar sem fólk hendir flokkuðu sorpi sínu.                                                                          

Þetta hefur verið gert í Hveragerði í nokkur ár með góðum árangri.

Með þessu fyrirkomulagi getum við farið á gámasvæðið með gjaldskyldan úrgang, okkur að kostnaðarlausu, með allt að 12 m3 á ári. Ef að það koma einstaklingar frá öðrum sveitarfélögum á gámasvæðið, þá verða þeir að borga samkvæmt gjaldskrá.

Fyrirtæki fá ekki miða og þurfa því alltaf að borga, því ekki er sanngjarnt að Sveitarfélagið Ölfus (við íbúarnir) séum að borga fyrir fyrirtækin.

Gjaldskyldur úrgangur er: Málmar/járn, timbur, veiðarfæri, kaðlar, heimilisúrgangur, rekstrarúrgangur og byggingarúrgangur. Sjá nánar á https://www.olfus.is/static/files/Skrar/gjaldskra-fyrir-sorphirdu-2017.pdf

Gjaldfrjáls úrgangur: Pappír/pappi, plast, hjólbarðar, föt o.fl.

Miðarnir verða fáanlegir, húseigendum til afgreiðslu frá og með 21. desember á Bæjarbókasafni Ölfuss, Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn.
Þar er opið frá mánudegi til föstudags frá kl. 12:30 til 17:30.

Vinsamlegast athugið að miðarnir verða ekki sendir í pósti.

Nánari upplýsingar í síma 899-0011 eða david@olfus.is

Davíð Halldórsson umhverfisstjóri.

Auglýsing vegna nýs miðakerfis

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?