Opnun sýningarinnar Töfrar möttulstraumanna í Gallerí undir stiganum.

Þann 5. júlí kl. 17:00 verður opnuð jarðfræðisýning í Gallerí undir stiganum, á Bæjarbókasafni Þorlákshafnar. Á sýningunni eru myndir sem sýna legu möttulstrauma undir landinu samkvæmt úttekt sem Steingrímur Þorbjarnarson hefur unnið. Meginskilin milli N-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans liggja um Ölfusið og er leitast við að skýra það nánar á sýningunni.

Steingrímur Þorbjarnarson er jarðfræðingur að mennt með BS-gráðu frá Háskóla Íslands. Hann fluttist til Þorlákshafnar fyrir tveimur árum. Steingrímur hefur kennt jarðfræði við Menntaskólann við Sund, Keili og Leiðsöguskóla Íslands. Einnig vann hann að kortlagningu á þverbrotabelti Suðurlands.

Á sýningunni er lögð áhersla á þrennt. Í fyrsta lagi eru sýnd möttulskil sem liggja frá Ölfusi um landið þvert yfir í Skjálfandaflóa. Í öðru lagi er straumþáttakerfið sýnt eftir 64°N þar sem það kemur fram á sérlega skýran hátt einmitt þar. Í þriðja lagi er dregið fram hvernig þverbrotabelti Suðurlands er mótað af straumþáttakerfinu og skýrir tilvist þess.

Allir velkomnir, kaffi á könnunni og moli með :) 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?