Öskudagur í Þorlákshöfn

Öskudagur031
Öskudagur031
Fjöldi barna og ungmenna kom í heimsókn

Hingað á bæjarskrifstofurnar hefur komið mikill fjöldi barna og ungmenna sem sungið hafa fyrir starfsmenn og fengið prins póló að launum.

 

Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska.  Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og nafn hans er dregið af því að þá er sums staðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og til þess notaður jafnvel sérstakur vöndur. Annars staðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta. Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn minnir hann á forgengileikann og hreinsar hann um leið af syndum.

Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að „marséra“ í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að „marséra“ og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar upp fyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.

Önnur venja hefur flust frá öskudegi til bolludags en það eru flengingar með vendi. Eins og áður var minnst á var ösku dreift með einhvers konar vendi í kirkjum á öskudag í katólskum sið og guðhræddir menn flengdu sjálfa sig með vendi í iðrunarskyni. Við siðbreytinguna fluttust flengingarnar yfir á aðra sem skemmtun og börn tóku þær að sér á bolludaginn hér á Íslandi.

Ein er sú hefð tengd öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi, en það er sú venja að hengja öskupoka á fólk. Kannski má rekja upphaf þess til katólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld, mögulegt er að heimild öld eldri greini frá sama sið. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum: konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Líklegt er að ólík kynjahlutverk og aðgengi að hlutum hafi þar skipt máli, en lykilatriði hjá báðum kynjum var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.

Snemma á 20. öld þróaðist öskupokasiðurinn í þá átt að verða nokkurs konar Valentínusarbréf. Ungar stúlkur sendu ungum piltum sem þeim leist vel á poka til að gefa áhuga sinn til kynna. Starfsmenn Vísindavefsins muna eftir úr sínu ungdæmi (sem ekki var fyrir svo löngu síðan!) að enn tíðkaðist að hengja öskupoka á fólk og þá var kynjaskiptingin horfin. Tilgáta Vísindavefsins er að breytingar á framleiðslu títuprjóna úti í heimi, svo þeir beygðust ekki jafn auðveldlega, hafi haft varanleg áhrif á pokasiðinn á Íslandi.  

Hingað á bæjarskrifstofurnar hefur komið mikill fjöldi barna og ungmenna sem sungið hafa fyrir starfsmenn og fengið prins póló að launum.

Heimildir:  Vísindavefur H.Í. og Almanak H.Í.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?