Pokastöð í Kr. Versluninni í Þorlákshöfn

Áhugahópur um plastpokalausan lífstíl hefur hrint af stað átaki til þess að minnka plastpokanotkun í sveitarfélaginu og opnuðu pokastöð í Kr. Versluninni í Þorlákshöfn. Hægt er að fá lánaðan fjölnota poka úr pokastöðinni þegar verslað er og síðan er pokanum skilað í næstu innkaupaferð.
Verkefnið var unnið með samtökunum Pokastöðin (Boomerang Bags á Íslandi) en Pokastöðin er samfélagsverkefni sem snýst um að búa til hringrás taupoka í samfélaginu. Verkefnið sem hófst á Hornafirði á vormánuðum 2016 er í dag hluti af alþjóðlegu verkefni sem heitir Boomerang Bags og á það uppruna sinn í Ástralíu.
Hrafnhildur Árnadóttir og Brynja Eldon, eru verkefnastýrur hér í Ölfusi og hafa unnið að verkefninu í samstarfi við SASS, Sveitarfélagið Ölfus, Gallerí Viss vinnustofu, Kr. Verslun og Lýsi hf. Gallerí Viss sá um að sauma pokana úr endurunnu efni og SASS, Kr. Verslun og Lýsi hf. hafa styrkt verkefnið.

Stefnt er að því að bæta við pokastöðvum í sveitarfélagið á næstu misserum og þeir sem hafa áhuga á að styrkja verkefnið geta haft samband við Katrínu, markaðs - og menningarfulltrúa Ölfuss katrin@olfus.is eða í síma 480 3808.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?