Síðastliðinn föstudag, 5. desember, fór fram ráðstefna ungmennaráða sveitarfélaga á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í Hilton Reykjavík Nordica. Ráðstefnan var haldin í tilefni af 80 ára afmæli Sambandsins og markaði mikilvægan áfanga í því að efla rödd ungs fólks í sveitarstjórnarstarfi.
Fulltrúar okkar frá Ölfusi voru Gunnar Ægir Þrastarson, Sóldís Sara Sindradóttir og Hreiðar Leó Vilhjálmsson en þau er öll í ungmennaráði Ölfuss. Með þeim í för var Ragnar Sigurðsson íþrótta- og tómstundafulltrúi Ölfuss.
Á ráðstefnunni komu saman fulltrúar ungmennaráða víðs vegar af landinu til að ræða málefni sem snerta ungt fólk, lýðræði og þátttöku í ákvarðanatöku. Markmiðið var að skapa vettvang fyrir samráð, nýjar hugmyndir og samstarf, þar sem ungmenni fá tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun sveitarfélaga.
Helstu áherslur ráðstefnunnar:
- Virkt samráð við ungmenni í sveitarfélögum.
- Lýðræðisvitund og aukin þátttaka ungs fólks í stjórnsýslu.
- Hugmyndir um framtíðarverkefni og samstarf milli ungmennaráða.
Ráðstefnan var vel sótt og var lifandi umræða um hvernig sveitarfélög geta hlustað betur á unga íbúa og um leið taka mið af þeirra sjónarmiðum í stefnumótun. Horft er til að þessi vettvangur verði þróaður áfram og styrktur á komandi árum.
