Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á sunnudaginn, spennandi áskoranir hluti af dagskrá sem fylgir í frétt

Nú styttist í sjómannadaginn og Björgunarsveitin hefur unnið að því að setja saman dagskrá eins og undanfarin ár og birtist hún hér neðar í þessari frétt. Í dagskránni eru spennandi nýjungar og við heyrðum í Snæfríði Sól, sem er meðlimur í Björgunarsveitinni Mannbjörg og spurðum hana út í dagskrána og fleira.

Hvernig verður sjómannadagurinn í Þorlákshöfn þetta árið?

,,Sjómannadagurinn verður með nokkuð hefðbundnu sniði þetta árið. Skemmtisiglingin leggur af stað úr höfn kl. 12.30 og svo tekur við dagskrá á bryggjunni þegar bátarnir koma í land um kl. 13. Á bryggjunni verða fastir liðir eins og venjulega með meiru. Fyrir þessi yngstu sem mega ekki fara í sjóinn verða hoppukastalarnir á sínum stað og krítar til að skreyta bryggjuna. Koddaslagurinn verður á sínum stað og Íþróttamiðstöðin lánar okkur trampolín fyrir adrenalínfíkla sem finnst ekki nóg að hoppa bara af bryggjunni. Kappróðurinn verður því miður að láta undan þetta árið þar sem bátarnir eru komnir til ára sinna en það verður ný keppni í staðinn fyrir kappróðurinn!
Dagskráin á bryggjunni lýkur um klukkan þrjú en þá færum við okkur yfir í ráðhúsið þar sem Sjómannadagskaffið tekur við. Þar verður dæmt í kökukeppni þar sem annars vegar er dæmt fyrir útlit og hins vegar dæmt fyrir bragð. Allir geta tekið þátt í keppninni og skráningin verður með sama hætti og fyrir dagskrána á bryggjunni en keppendur geta annað hvort sent línu á sveitina á Facebook síðunni okkar eða með tölvupósti á mannbjorg@gmail.com.
Við stoppum ekki þar heldur verða líka skemmtiatriði í boði tónlistarfólks sem er fætt og uppalið hér í Ölfusinu. Verðskráin er sú sama og í fyrra en hana má líka sjá á auglýsingunni okkar á Facebook.“

Eru einhverjar nýjungar í ár?

,,Heldur betur! Í staðinn fyrir kappróðurinn verður kappsund! Keppt verður bæði í liðakeppni með þriggja manna liðum í boðsundi og einstaklingskeppni. Fyrirkomulagið er þannig að þú myndar lið og skorar á aðra til að mynda lið og keppa við þig og þína! Þetta geta verið fyrirtæki, félög eða vinahópar, eina reglan er þrír í liði. Einstaklingskeppnin er eins, þú skorar á þann sem þú vilt keppa á móti. Fáirðu áskorun skorar þú á næsta og svo koll af kolli. Íþróttamiðstöðin gefur svo verðlaunin fyrir sigurvegarana í liða- og einstaklingskeppninni.“


Nú er sjómannadagurinn stór liður í fjáröflun björgunarsveitarinnar, hvernig getur fólk stutt við starf sveitarinnar á þessum degi?

,,Sjómannadagskaffið hefur verið fastur liður í okkar fjáröflun. Félagsmenn og velunnarar baka kökur og leggja til í kaffið og verður þetta með sama sniði í ár. Við tökum vel á móti öllu bakkelsi á sunnudeginum milli 11 og 12. Mig langar til að hvetja alla sem eru aflögufærir til þess að leggja okkur lið og kæta um leið íbúa sem fara saddari heim fyrir vikið.
Mikilvægast er þó að mæta á kaffið, sjá keppniskökurnar og smakka og njóta skemmtunarinnar meðan þú gæðir þér á vellystingunum sem í boði eru.“

Þetta er stórt ár í sögu Björgunarsveitarinnar Mannbjörg, getur þú sagt okkur aðeins frá því?

,,Já, í ár er afmælisár sveitarinnar sem verður 70 ára í nóvember. Hún var fyrst stofnuð í Hveragerði en starfið svo flutt hingað til Þorlákshafnar og hefur verið starfandi síðan. Í ár er því mjög mikilvægt fyrir okkur að allar fjáraflanir gangi vel og að fólk taki vel á móti okkur svo við getum boðið í almennilega afmælisveislu í vetur.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við?

,,Mig langar bara aftur að hvetja alla til að taka þátt í allri dagskráni, mæta í kaffið og njóta þess sem er þar í boði, skora á hvort annað í sundi og koddaslag og gera sér glaðan dag með okkur. Stemmarinn er undir okkur öllum komið og langskemmtilegast ef allir taka þátt.

Við höfum nú þegar skorað á starfsmenn leikskólans að mynda lið í sjóboðsundið og það stóð ekki á því! Fyrsta liðið er því skráð og þau skora á starfsmenn Grunnskólans í Þorlákshöfn að mynda þriggja manna lið og skrá það til leiks, GÞ þarf svo að sjálfsögðu að skora á eitthvað annað fyrirtæki í bænum að gera slíkt hið sama!

Setjum boltann af stað og mætum hress niður á bryggju á Sjómannadag!“

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?