Skapandi endurvinnsla

Listasmiðja í Þorlákshöfn árið 2010
Listasmiðja í Þorlákshöfn árið 2010

Listasmiðja menningarnefndar sumarið 2010 ber yfirskriftina "skapandi endurvinnsla". Leiðbeinandi er Ágústa Ragnarsdóttir, en Menningarráð Suðurlands styrkir smiðjuna.

Skapandi endurvinnsla er listasmiðja fyrir börn í Þorlákshöfn, leiðbeinandi er Ágústa Ragnarsdóttir og er Ingimar Rafn Ágústsson sumarstarfsmaður Bæjarbókasafns Ölfuss henni innan handar eins og aðrir starfsmenn bókasafnsins. Listasmiðjan er skipulögð af menningarnefnd Ölfuss og starfrækt í eina viku, en hún er styrkt veglega af Menningarráði Suðurlands.

Áður en börnin byrja að vinna þurfa þau fyrst að flokka efnið og raða, síðan er efniviðnum umbreytt í skapandi vinnu. Fyrirtæki og stofnanir hafa lagt til efni sem þau eru hætt að nota og ætlunin var að henda, einnig safnar Ágústa sjálf allskyns hlutum og fer út í náttúruna og safnar ýmsu þar.

Skeljar, steinar og strá er gott að nota alveg eins og ýmis önnur efni eins og garn, perlur, bútaefni og klósettrúllur. Hún segir að það sé hægt að gera ótrúlega margt úr klósettrúllum t.d. pennastatíf. Úr efniviðnum verða líka til klippimyndir og mósaíkverk. Mósaíkverkin eru útbúin með krukkum eða flöskum. Þátttakendur líma flísarnar utan á flöskurnar eða krukkurnar og úr þessu verður mósaíkverk.

Krakkarnir voru búnir að vera að gera myndir og líma flísar á flöskur þegar undirritaðan bar að garði en úr þessu verður til mósaíkverk. Einnig gerðu þau pennastatíf úr klósettrúllum.

Krakkarnir sem voru á námskeiðinu á þeim tíma sem undirritaður var að vinna greinina voru flest sammála um að það væri gaman í listasmiðjunni og flöskurnar voru skemmtilegasta verkefnið en jafnframt það erfiðasta, þetta krefst gríðarlegrar þolinmæði en hún skiptir öllu máli í list og listsköpun. Einnig sagði ein stúlkan að það væri bara allt skemmtilegt þarna.

Markmiðið með vinnunni er að kenna krökkunum ákveðin vinnbrögð, bæði vönduð og öguð og sýna þeim hversu margt er hægt að nota við listsköpun.

Þolinmæðin skipir öllu máli og svo þarf að treysta á eigið hugmyndaflug. 

Listasmiðjan er gott tækifæri fyrir börn sem vilja gera eitthvað skemmtilegt úr hlutum sem hætt er að nota og ætlunin var að henda.

Á föstudaginn lýkur listasmiðjunni með sýningaropnun í Gallerí undir stiganum. Þá sýna þátttakendur verkin sem þau hafa unnið að í listasmiðjunni og eru allir áhugasamir boðnir velkomnir. Sýningaropnun verður sem fyrr segir næstkomandi föstudag, 2. júlí, klukkan 17:00. Sýningin mun standa yfir allan júlímánuð.

 

Greinahöfundur: Hákon Svavarsson, sumarstarfsmaður á Bæjarbókasafni Ölfuss

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?