Skemmtilegir fjölskyldutónleikar Tóna við hafið

Blásarakvintett Reykjavíkur
Blásarakvintett Reykjavíkur
Blásarakvintett Reykjavíkur heldur skemmtilega fjölskyldutónleika í Þorlákskirkju sunnudaginn 9. nóvember kl. 16:00

Blásarakvintett Reykjavíkur sem stofnaður var árið 1981, heldur skemmtilega fjölskyldutónleika í Þorlákskirkju sunnudaginn 9. nóvember kl. 16:00.

Núverandi meðlimir kvintettsins eru Hallfríður Ólafsdóttir á flautu, Daði Kolbeinsson á óbó, Einar Jóhannesson á klarinett, Darri Mikaelsson á fagott og Jósef Ognibene á horn og spila þau öll einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Blásarakvintett Reykjavíkur er einn virtasti kammerhópur Íslands og hefur hann borið hróður íslenskrar tónmenningar um heim allan. Hópurinn hefur haldið tónleika um gervalla Evrópu, Bandaríkin, Asíu og Ástralíu þar sem hann hefur m.a. leikið í Carnegie Hall í New York, Wigmore Hall í London og Óperuhúsinu í Sydney. Mörg tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir hann og hin virtu hljómplötufyrirtæki Chandos og BIS hafa gefið út leik kvintettsins og dreift um allan heim. Þessir hljóðritanir  hafa fengið jákvæða umfjöllun í ýmsum virtum tónlistartímaritum eins og Gramophone og Penguin Guides to Classical CDs.

Blásarakvintett Reykjavíkur var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 1995 og var opinber kammerhópur Reykjavíkurborgar 1998 – 2000. Árið 2013 hélt kvintettinn tónleika í Victor Borge-salnum í Scandinavia House í New York borg og munu þau fara eftir áramót í tónleikaferð um Skotland.

Á tónleikunum í Þorlákskirkju flytur kvintettinn þekkt sönglög og skemmtilega klassík sem flestir ættu að þekkja og eru þetta því tilvaldir fjölskyldutónleikar.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Suðurlands og Landsbyggðartónleikum FÍT og FÍH.

Aðgangseyrir er 2.000 krónur en ókeypis er fyrir börn 16 ára og yngri.

Athugið að enginn posi er á staðnum.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?