Sögur og endurminningar í nýrri útgáfu

Haustið 1882  hvíldi ævintýraljómi yfir sjómannslífinu í Þorlákshöfn og eftirvænting hjá ungum mönnum að komast þangað. Um þennan tíma fjalla bækur Sigurðar frá Flóagafli sem nú eru til á hljóðbók og í stafrænni útgáfu á bókasafninu.
Um síðustu helgi var efnt til viðburðar í Þorlákshöfn til að vekja athygli á nýrri útgáfu tveggja bóka sem Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli skrifaði og gaf út árin 1938 og 39.  Afkomendur Sigurðar ákváðu að gefa þær út í hljóðbók og stafrænni útgáfu og gera þær aðgengilegar í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus, en unnið er að því að gera stafræna útgáfu aðgengilega á vef sveitarfélagsins.

Í bókunum rifjar Sigurður upp sjómannslífið í Þorlákshöfn og eru þær mikilvægar heimildar um atvinnuhætti, verklag og mannlíf í Þorlákshöfn fyrri tíma og um sjósókn á Íslandi á þessum tíma.  Í fyrri bókinni er m.a. fjallað um fyrstu vertíð Sigurðar haustið 1882, þegar hann er fimmtán ára gamall.  Hann kemst þá í hálfdrættingspláss hjá Þorkeli Þorkelssyni í Óseyrarnesi, sem var að hefja formennsku í Þorlákshöfn.  Það hvíldi ævintýraljómi yfir sjómannslífinu í Þorlákshöfn og eftirvæntingin því mikil hjá ungum manni að komast þangað.
 
Á þessari vertíð lenti áhöfnin í miklum hremmingum, en þær eru að miklu leiti kveikjan að skrifum Sigurðar, eða réttara, hann fann sig knúinn til að leiðrétta rangfærslur sem skrifaðar höfðu verið um þá atburðarás sem þarna átti sér stað.  En hann segir frá því, að fimmtudaginn eftir páska, á þessari fyrstu vertíð sinni, skellur á mannskaðaveður.  Opinn áttæringur Þorkels, með Sigurð og þrettán aðra menn í áhöfn, var þá á veiðum vestur af Þorlákshöfn þar sem kallað er Hleinin.  Þeir veiddu vel, en við róðurinn til baka skall á þá stórviðri með svarta byl og hörku frosti.  Bátur Ólafs frá Dísastöðum sem var að veiðum sjónhending frá þeim, skilaði sér aldrei.  Skip Þorkels hvarf og var áhöfnin talin af í 10 daga.

Þeir lentu í skelfilegum hrakningum.  Reyndu að halda sig nærri landi, en steyttu á skeri og minnstu munaði að þeir misstu við það stýrið.  Eftir að hafa hrakist undan fárviðrinu og siglt á árum í frosti og myrkri, birtist frönsk skúta skyndilega í sortanum og náði að bjarga þeim úr opnum bátnum.  Þá reyndust þeir vera 6 sjómílur (11 km) frá landi.  Talið var fullvíst að skútan „Gentille“ hafi verið eina úthafsskipið sem þá var komið á miðin fyrir suðurlandi.  Í skútunni var hlúð að þeim og voru þeir um borð í henni þar til veður gekk niður.  Þá var þeim komið í land í Vestmannaeyjum, þar sem þeir fengu góðar móttökur.  Heimamenn skutu yfir þá skjólshúsi og veittu þeim beina.  Þótt ekki væri sjóveður, var sendur póstur til meginlandsins daginn eftir.  Póstsendingin var ólík því sem við þekkjum í dag.  Bréf voru sett í flösku ásamt nokkrum aurum sem ætluð voru finnanda í þakklætisskyni.  Gengið var frá tappanum á flöskuskeytinu og lakkað yfir stútinn.  Eitt bréfanna í flöskunni var ætlað finnanda flöskunnar en í því stóð:  „Hér kom í gær frakknesk fiskiskúta með Þorkel frá Óseyrarnesi og alla skipshöfn hans heila á húfi, er hann hafði fundið út á hafi og bjargað. Þetta er finnandinn vinsamlega beðinn að hlutast til um, að verði tafarlaust tilkynnt hlutaðeigendum“.  Ekki var pósturinn lengur á leiðinni í þá daga en í dag þó ólíkur væri, því fyrsta flaskan fannst daginn eftir í fjöru Skúmsstaða í Vestur-Landeyjum.  Þar bjó Sigurður Magnússon dannebrogsmaður, sem var fæddur í Þorlákshöfn 1810 og hans fólk bjó þar enn þegar þetta gerðist.   Sigurður á Skúmsstöðum skildi hvað í húfi var og sá til þess að hraðboði færði gleðitíðindin á heimaslóð innan sólarhrings.

Í ár eru 130 ár liðin frá þessari atburðarrás sem Sigurður frá Flóagafli lýsir í bókinni Þorlákshöfn. Á sjó og landi.  Seinni bókin sem kom út ári seinna, heitir Endurminningar Jóns frá Hlíðarenda. Gamalt og nýtt frá Þorlákshöfn.  Langafabarni Sigurðar, Þorkeli Guðnasyni þótti tilvalið að minnast þessara merku tímamóta með endurútgáfunni og var erindi hans allsstaðar vel tekið, enda var flestum núlifandi afkomendum Sigurðar ókunnugt um tilvist bókanna og þær nánast gleymdar nema í Þorlákshöfn þar sem þær hafa gengt mikilvægu hlutverki við að miðla sögu byggðalagsins og verið notaðar sem heimildir í söguskrifum. 

Þorkell afhenti Bæjarbókasafni Ölfuss hljóðbókarútgáfu bókanna ásamt stafrænu eintak þeirra síðastliðinn sunnudag eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og langafabarn Sigurðar sagði frá ýmsu áhugaverðu um langafa sinn og aðdraganda skrifanna.  Það er Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem les textann inn á hljóðbækurnar og las hann fyrir gesti valda kafla auk þess að spila vísur sem tengdust sjósókn og/eða Þorlákshöfn.
Hæt er að skoða bækurnar í pdf sniði um vefslóðina:  
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?