Söngveisla Tóna við hafið

Hlín Pétursdóttir og Hrönn Þráinsdóttir með tónleika
Hlín Pétursdóttir og Hrönn Þráinsdóttir með tónleika

Á tónleikum Tónar við hafið næsta fimmtudagskvöld, syngur Hlín Pétursdóttir við undirleik Hrannar Þráinsdóttur þekkt sönglög sunnlenskra tónskálda, óperuaríur og fleira fallegt og skemmtilegt.

Á næstu tónleikum "Tónar við hafið" í ráðhúsinu í Þorlákshöfn, verður boðið upp á söngveislu. Tónleikarnir verða fimmtudaginn 28. október og hefjast kl. 20.

Það er sunnlenska sópransöngkonan Hlín Pétursdóttir Behrens sem flytur úrval innlendra og erlendra sönglaga og óperuaría ásamt píanistanum Hrönn Þráinsdóttur. Hlín þarf vart að kynna, en eftir að hafa starfað erlendis um árabil býr hún nú á Íslandi, kennir söng á Selfossi og í Reykjavík og syngur á tónleikum bæði hér heima og á erlendri grund. Hrönn Þráinsdóttir stundaði nám í píanóleik í Þýskalandi, með sérstaka áherslu á meðleik með söngvurum. Hún leikur með kammersveitinni Ísafold og kennir m.a. við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskólann í Reykjavík. Á efnisskrá eru einstaklega aðgengileg og fjölbreytt verk, m.a. eftir sunnlensku tónskáldin Friðrik Bjarnason og Elínu Gunnlaugsdóttur auk sönglaga eftir Sigfús Halldórsson, Sigvalda Kaldalóns, Felix Mendelsohn-Bartholdy og Franz Schubert. Einnig verða fluttar óperuaríur eftir Händel, Menotti og Verdi.

Almennt miðverð er 1.500 krónur. Eldri borgarar og öryrkjar greiða 1.000 kr.

Tónar við hafið njóta styrkjar frá Menningarráði Suðurlands

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?