Eins og flestir vita er sveitarfélagið að opna nýjan leikskóla hér í Þorlákshöfn. Leikskólinn hefur fengið nafnið Hraunheimar og mun taka á móti börnum frá 18 mánaða aldri til 6 ára. Að stofna og opna nýja stofnun er bæði spennandi og krefjandi verkefni sem kallar á mikla samvinnu, skipulag og lausnamiðaða hugsun. Við
erum ótrúlega stolt af því starfi sem þegar hefur verið unnið og hlökkum til að taka á móti börnunum og fjölskyldum þeirra þegar opnunin verður að veruleika.
Eins og gengur með svona stór verkefni geta komið upp atriði sem krefjast meiri tíma en upphaflega var áætlað. Því miður hefur opnun leikskólans tafist nokkuð vegna eldvarnahurða sem eru nauðsynlegar til að leikskólinn uppfylli allar öryggiskröfur. Þessar hurðir, líkt og aðrar hurðir og innréttingar, eru framleiddar í Litháen. Allar aðrar innréttingar og venjulegar hurðir hafa þegar borist, verið settar upp og húsið hefur verið þrifið og undirbúið með leikföngum og búnaði fyrir börnin. Það er því að mestu leyti tilbúið til notkunar.
Ferlið við afhendingu eldvarnahurðanna hefur hins vegar reynst flóknara en vænst var. Áður hafa tafir stafað af breyttum öryggisreglum í framleiðslulandinu sem höfðu áhrif á flutninga og afhendingu og vandamál tengt læsingum. Þegar loksins tókst að fá hurðirnar í flutning, skemmdust nokkrir karmar á leiðinni. Þessir karmar eru sérstaklega mikilvægir til að skipta leikskólanum niður í eldvarnarhólf og voru í raun þeir einu sem við þurftum til að ná að opna og voru þeir einu sem skemmdust. Þeir fóru strax í viðgerð og bárust aftur til Þorlákshafnar síðdegis í gær, þriðjudag. Iðnaðarmennirnir okkar vinna nú hörðum höndum við að koma
öllum körmum fyrir sem allra fyrst. Uppsetningin gengur vel og unnið er að því að setja karmana upp á réttum stöðum, koma fyrir gleri og ganga frá öllum smáatriðum. Stefnt er að því, miðað við framvindu verksins, að leikskólinn opni næstkomandi mánudag.
Að öðru leyti er leikskólinn tilbúinn til notkunar. Deildirnar hafa verið innréttaðar og leikföng sett á sinn stað. Hólf og rými eru merkt og allt innra starf hefur verið skipulagt af mikilli natni. Það eina sem við bíðum eftir núna eru eldvarnahurðirnar svo við getum loksins tekið á móti börnunum og fjölskyldum þeirra í okkar
nýja og glæsilega leikskóla. Einnig vantar sófa inni á kaffistofu en það er smáatriði sem er í vinnslu.
Yngribarnalóðin gengur vonum framar og stefnt er að því að sá hluti verði tilbúinn til úttektar næstkomandi mánudag. Í kjölfarið af því er hægt að byrja nýta það svæði undir leik og starf.
Við vitum að biðin getur verið krefjandi, en við trúum því að hún muni borga sig. Það er gamalt máltæki sem segir að „fall sé fararheill“ og við vonum svo sannarlega að það eigi við hér á Hraunheimum. Starfsfólkið okkar er frábært, fullt af eldmóði og fagmennsku, og það er án efa mikilvægasti þátturinn þegar byggja á upp góðan leikskóla. Við erum sannfærð um að við munum skapa leikskóla sem stuðlar að vellíðan barna, eflir félagsfærni og undirbýr þau vel undir lífið framundan, í nánu
samstarfi við foreldra.
