Stórafmæli Söngfélags Þorlákshafnar

Söngfélag Þorlákshafnar 2010
Söngfélag Þorlákshafnar 2010
Söngfélag Þorlákshafnar fagnar á þessu ári 50 ára starfsafmæli

Söngfélagið var stofnað 19. október 1960 af áhugasömu fólki í Þorlákshöfn og nágrenni, einkum fyrir tilstilli Ingimundar Guðjónssonar organista og fyrsta söngstjóra félagsins. Engin kirkja var þá á staðnum og því ekki hægt að stofna kirkjukór og fátt var um samkomusali. Æfingar fóru fram í mötuneyti Meitilsins fyrstu árin og þurfti að bera hljóðfæri heiman frá organistanum á hverja æfingu. Nú eru breyttir tímar og æfingar fara fram í húsnæði Grunnskólans og heimatónleikar ýmist í Þorlákskirkju eða Versölum. Í gegnum tíðina hefur messusöngur verið aðalviðfangsefni Söngfélagsins, enda var lengst af sungið við helgihald í þremur kirkjum, Þorlákskirkju, Hjallakirkju og Strandarkirkju. Fyrir utan kirkjusönginn hefur félagið þó ávallt haft veraldlegan söng á dagskrá sinni. Árið 2004 var stofnaður sérstakur kirkjukór í prestakallinu og síðan þá hefur Söngfélagið einungis sungið við kirkjulegar athafnir sé þess sérstaklega óskað.

Félagsstarf Söngfélagsins hefur alltaf verið mjög blómlegt. Fyrir utan hefðbundið tónleika- hald um jól og að vori hafa skemmtikvöld, útilegur, æfingabúðir að ógleymdum ferðalögum um landið og erlendis verið á dagskránni.  Oftast er fjöldi þeirra sem syngja í kórnum á bilinu 20-30. Þetta er fólk á öllum aldri en það hefur aldrei háð félagsstarfinu,  það er enginn aldursmunur til þegar kórsöngur er annars vegar.

Eins og áður kom fram var Ingimundur Guðjónsson fyrsti söngstjóri félagsins og stjórnaði hann kórnum til dauðadags árið 1982 eða í 22 ár. Söngstjórar síðan þá eru Hilmar Örn Agnarsson,  Ari Agnarsson, Karl heitinn Sighvatsson, Hákon Leifsson og Julian Isaacs. Róbert Darling stjórnaði kórnum frá 1992-2002 og tók svo aftur við stjórninni þegar kórinn hætti starfi sínu við kirkjuna og er hann núverandi söngstjóri Söngfélagsins.

50 ára afmælisins verður minnst með margvíslegum hætti í ár. Síðastliðið vor hélt Söngfélagið afmælistónleika í Þorlákskirkju sem tókust mjög vel. Fimmtudaginn 7.október kl.18:00 opnar sýning á ljósmyndum, búningum, söngskrám og öðru efni  í gallerí Undir stiganum í Bæjarbókasafni Ölfuss. Þá verður haldin afmælisveisla í Versölum laugardaginn 16.október nk. Þar ætla söngfélagar og gestir að gera sér glaðan dag með góðum mat, miklum söng, skemmtiatriðum og dansi. Vænst er þátttöku sem flestra velunnara Söngfélagsins. Í lok nóvember verða svo stórtónleikar með Sigrúnu Hjálmtýsdóttur (Diddú), blásarasveit og Söngfélagi Þorlákshafnar í Versölum.

Félagar í Söngfélagi Þorlákshafnar þakka sveitungum sínum í Ölfusi samfylgdina í hálfa öld og vonast til að fá tækifæri til að vera hluti af  öflugu tónlistar- og menningarlífi sveitarfélagsins um ókomin ár.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?