Sumarlestur: Leitin að ævintýraheimum

Ferðumst um ævintýraheima barnabókanna!

Hefurðu prófað að lesa fantasíu, vísindabók, myndasögu eða sögu sem gerðist fyrir langa, langa löngu?
Eða kannski bækur um íþróttir, dýr eða grín og glens?

Kannaðu nýja ævintýraheima í sumar. Þú færð ævintýrakortið: Leitin að ævintýraheimum þegar þú heimsækir bókasafnið í sumar. Í hvert sinn sem þú skilar bók eða lest bók í bókasafninu getur þú safnað límmiðum úr 8 ólíkum ævintýraheimum og að lokum verður þú lestrarmeistari sumarsins!. Límmiðana færðu á almenningsbókasöfnum vítt og breitt um landið.

Þrjár leiðir til að safna límmiðum

Fara veginn
Ef þið skoðið kortið vel sjáið þið að það er hægt að fara á milli eyjanna eftir ákveðinni leið sem byrjar neðst í vinstra horninu. Þá lesið þið bók úr hverju þema, fáið límmiða og fylgið hvítu punktalínunum yfir á næstu eyju. Þetta hentarþeim sem vilja áskorun.

Fara sjóleiðina
Fyrir þá sem vilja fara aðeins frjálslegri leið, þá hvetjum við ykkur til að fara sjóleiðina. Þá er hægt að sigla á milli þemaeyjanna og taka þær í þeirri röð sem manni sýnist. T. d. er hægt að byrja á íþróttabók og sigla svo yfir á dýraeyjuna.

Safna límmiðum óháð þemum
Sumarlestur á fyrst og fremst að vera skemmtilegur. Fyrir þau sem ekki vilja lesa bækur úr öllum flokkum þá má líka safna límmiðum óháð þemum. Þessi leið hentar eflaust fyrir yngstu lesendurna. Í staðinn hvetjum við fullorðna fólkið til þess að skoða og spjalla við börnin um það sem fyrir augu ber á hverri eyju.

Gleðilegt ævintýrasumar!
Hlökkum til að sjá ykkur á Bæjarbókasafninu

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?