Sveitarfélagið Ölfus hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2023

Sveitarfélagið Ölfus er meðal þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), í ár en verkefnið snýst um að jafna hlut kynjanna í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs tók við viðurkenningunni fyrir hönd sveitarfélagsins á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar sem var haldin 12.október sl. 

Jafnvægisvogin hefur það markmið að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja og stofnana í íslensku viðskiptalífi þannig að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum. Jafnframt er verkefninu m.a. ætlað að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

Á árlegri ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar sem að þessu sinni bar yfirskriftina ,,Við töpum öll á einsleitninni - jafnrétti er ákvörðun" voru veittar viðurkenningar til þeirra aðila sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar en mat á árangri er í höndum sérstaks jafnvægisvogarráðs.  Á ráðstefnunni var jafnframt kynnt mælaborð sem varpar ljósi á stöðuna í jafnréttismálum í atvinnulífinu í dag og þá voru flutt erindi sem snerta jafnréttismál á breiðum grunni.

Upptöku af ráðstefnunni má finna hér

Að hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?