Þollóween hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og Skóla 2019

Skammdegishátíðin Þollóween hlaut, rétt í þessu, Hvatningarverðlaun Heimilis og Skóla 2019. Í umsögn um verkefnið segir:

„Hópur foreldra stóð fyrir veglegri bæjarhátíð í samvinnu við skóla og stofnanir í Þorlákshöfn. Dagskráin samanstóð af viðburðum fyrir bæði börn og fullorðna sem dreifðust á heila viku.  Á dagskrá var m.a. „Hrollvekjusýning“ í Frístund og félagsmiðstöð, „Skelfileg skrautsmiðja“ í skólanum þar sem allir gátu komið og föndrað, skorið út grasker o.fl., „Ónotaleg sundstund“ í sundlauginni , „Afturganga“, gönguferð með leiðsögn þar sem hinar ýmsu furðuverur spruttu fram, „Grafir og bein“, vasaljósaleit fyrir yngstu börnin, „Þollóween ball“ fyrir 7. -10. bekk, „Reimleikar“, draugahús í félagsmiðstöð fyrir 1. - 10. bekk, „Grikk eða gott í Þorlákshöfn“ þar sem íbúar gátu boðið upp á sælgæti fyrir börnin, „Furðufatahlaup“ og „Taugaslakandi jóga“.

Verkefnið var unnið algerlega án styrkja og að frumkvæði þessara foreldra. Verkefnið vakti mikla lukku og unnið var með þemað í kennslu nemenda. Danskennari kenndi hryllingsdans, unnar voru hryllingssögur og margt fleira gert í skólanum. Hópurinn lagði á sig mikla vinnu og náði að skapa samheldni, samvinnu og skemmtun fyrir alla bæjarbúa en sérstaklega börn og fjölskyldur þeirra.“

Aðstandendur Þollóween vilja þó benda á að verkefnið hlaut styrki frá einstaklingum, fyrirtækjum og Sveitarfélaginu Ölfusi þótt það hafi farið af stað með tvær hendur tómar.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?