Þórsarar spila í Iceland Express á næstu leiktíð

thor_valur-4_jpg_280x600_q95
thor_valur-4_jpg_280x600_q95
Góður árangur körfuboltadeildar Þórs

„Svona áfangi hefur mikið að segja fyrir svona lítið bæjarfélag. Þetta gleður klárlega einhverja,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari 1. deildar liðs Þórs Þorlákshafnar í körfuboltanum.

„Svona áfangi hefur mikið að segja fyrir svona lítið bæjarfélag. Þetta gleður klárlega einhverja,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari 1. deildar liðs Þórs Þorlákshafnar í körfuboltanum. Þór vann um helgina sinn fjórtánda leik í röð í 1. deildinni þegar liðið lagði Val á heimavelli. Með hagstæðum úrslitum sama kvöld í öðrum leikjum var það ljóst að Þór væri komið upp í Iceland Express-deildina í þriðja skiptið

„Ég vissi ekkert um stöðuna í hinum leikjunum og hélt því að við þyrftum að ná í alla vega einn sigur til viðbótar. Síðan heyrði ég að Þór Akureyri hefði tapað og þá væri þetta komið. Ég fagnaði samt ekkert eins og óður maður þegar lokaflautið kom,“ segir Benedikt.

„Ég er bara rosalega ánægður fyrir hönd strákanna, fólksins sem er að mæta á leikina, stjórnarinnar og allra. Þetta er flottur áfangi fyrir liðið,“ segir Benedikt en óraði hann fyrir taplausu tímabili þegar hann tók við liðinu í fyrrasumar. „Nei, maður sér svoleiðis ekkert fyrir sér. Við erum samt búnir að vera nokkuð einbeittir að vinna þessa leiki og við ætlum ekkert að slaka á núna. Það eru fjórir leikir eftir og þá ætlum við að vinna líka.“

Hafði alltaf trú.

Framganga Þorlákshafnar Þórsara á tímabilinu er enn ein rósin í hnappagat Benedikts Guðmundssonar sem hefur afrekað ótrúlega hluti sem þjálfari þrátt fyrir ungan aldur. Hann þjálfaði á sínum tíma 1982-árganginn hjá KR sem innihélt meðal annars Jón Arnór Stefánsson en þeir drengir töpuðu varla leik. Hann var einnig þjálfari U18 ára landsliðs Íslands þegar það lagði ríkjandi Evrópumeistara Frakka í frægum leik.

Með félagsliðum hefur Benedikt gert frábæra hluti. Hann kom ungu Fjölnisliði upp í úrvalsdeildina 2004 og fór með það í úrslitakeppnina þar. Hann tók síðan við uppeldisfélagi sínu, KR, og gerði það að Íslandsmeistara 2007 og 2009. Í fyrra stýrði hann kvennaliði KR og árangurinn sá sami, Íslandsmeistari.

„Ég hafði samt alltaf trú á að við gætum farið upp í ár. Við erum með sterkan heimavöll og gríðarlega flotta stuðningsmannasveit. Ég vissi um leið og ég tók við að við hefðum það sem þurfti til að gera eitthvað í vetur. Ég var samt ekki að sjá fram á að vera taplausir í febrúar.“

Heimild:  http://www.dv.is/sport/2011/2/7/sa-ekki-fram-ad-vera-taplaus-i-februar/


 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?