Tónar við hafið í Þorlákskirkju

Í dag, föstudaginn 28. desember verður efnt til síðustu tónleika í tónleikaröðinni Tónum við hafið í Þorlákshöfn

Í dag, föstudaginn 28. desember verður efnt til síðustu tónleika í tónleikaröðinni Tónum við hafið í Þorlákshöfn. Tónleikaröðin hefur verið haldin undanfarin sex ár yfir vetrarmánuðina fyrir tilstilli menningarnefndar Ölfuss og hafa margir helstu tónlistarmenn landsins og erlendir aðilar komið að tónleikaröðinni á þessum árum. Fyrir menningarlífið á Suðurland hefur tónleikaröðin verið mikil lyftistöng þar sem margir hafa haldið sína fystu stórtónleika á Tónum við hafið og náð þannig að koma sér á framfæri. Einnig er það ómetanlegt að fá að heyra helstu tónlistarmenn landsins, kynnast því sem nýjast er og marvíslegum tónlistarstefnum. Þannig hafa tónleikarnir verið af ýmsum toga þar sem jazz, popp og rokk hefur fengið að njóta sín sem og klassík og þjóðleg tónlist. Eins og fyrr segir er það menningarnefnd Ölfuss sem heldur utanum tónleikaröðina en fær góðan styrk til tónleikanna frá Menningarráði Suðurlands. 

Síðustu tónleikar ársins eru ætíð haldnir þann 28. desember, en þann dag árið 1916 fæddist Ingimundur Guðjónsson, einn af frumkvöðlum menningarlífs í Þorlákshöfn, stofnandi Sönfélagsins, organisti og drifkraftur í byggingu kirkju í þorpinu. Sonur Ingimundar, Jónas Ingimundarson píanóleikari hefur tekið þátt í að skipuleggja tónleikana og margoft tekið virkan þátt í þeim. Að þessu sinni fær hann til liðs við sig söngvarana Þóru Einarsdóttur, sópran og Gissur Pál Gissurarson, tenór, en þau munu flytja ýmis lög við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur.  Á tónleikunum syngur einnig Kyrjukórinn, en það er kvennakór sem æfir í Þorlákshöfn undir stjórn Sigurbjargar Hvanndal Magnúsdóttur. Tónleikarnir verða eins í Þorlákskirkju og hefjast klukkan 20:00. Aðgangseyrir er 1.500 krónur.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?