Tröllabrauð af hálendinu

Þórarinn Grímsson hjá Tröllabrauðinu
Þórarinn Grímsson hjá Tröllabrauðinu
Fyrir nokkru færði Þórarinn Grímsson bóka- og byggðasafni Ölfuss tröllabrauð að gjöf

Fyrir nokkru færði Þórarinn Grímsson bóka- og byggðasafni Ölfuss tröllabrauð að gjöf.  Tröllabrauðið hefur vakið mikla athygli gesta á öllum aldri, en það dregur nafn sitt af stærðinni og þeirri staðreynd að það er úr steini og því hefur enginn lagt í að næla sér í bita.

Sagan á bakvið brauðið er skemmtileg.  Fyrir um átta árum var Þórarinn að keyra ferðamannahóp um landið. Þegar hópurinn var á leið yfir hálendið um Sprengisand, rak Þórarinn augun í flögur sem virtust allar hafa brotnað úr sama steininum.  Hann stoppaði rútuna og fór að safna flögunum saman.  Ferðamennirnir sem voru um 30 talsins, fylltust miklum áhuga og hjálpuðu honum að leita.  Það tók dágóða stund eða um klukkutíma að finna öll brotin því veður og aðallega snór og ís, höfðu dreift brotunum um stórt svæði og einnig höfðu þau að einhverju leiti grafist í sandinn.  En leitin skilaði að lokum þeim árangri að öll brotin fundust.

Heim kominn raðaði Þórarinn brotunum listilega á hellu og festi með steypu.  Það er líkt og tröllin hafi rétt náð að skera brauðið í sneiðar en gleymt að gæta sín þegar sólin kom upp að morgni og brauðið orðið að grjóti líkt og tröllin, þegar sólin fór að skína.

Starfsmenn bókasafnsins þakka Þórarni kærlega fyrir þessa góðu gjöf.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?