Styrkveitingar úr lista og menningarsjóði Ölfuss 2025

Á fundi bæjarráðs Ölfuss í morgun, 4. desember 2025, var gengið frá úthlutun úr Lista- og menningarsjóði sveitarfélagsins. Alls bárust fimm umsóknir að upphæð 2.900.000 króna, en til úthlutunar voru 1.385.000 krónur. Þrjú spennandi verkefni hlutu styrk að þessu sinni, öll í samræmi við reglur sjóðsins.

Lúðrasveit Þorlákshafnar hlýtur stærsta styrkinn, 700.000 krónur, til að halda teiknimyndatónleika 21. mars 2026 í Þorlákshöfn. Markmiðið er að vekja áhuga yngri kynslóðar á lúðrasveitarstarfi og hvetja til tónlistarnáms, sem styrkir starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga.

Garðatónleikar á bæjarhátíð fá 535.000 krónur. Hjónin Guðlaug Einarsdóttir og Róbert Dan Bergmundsson, í samstarfi við tónlistarmanninn Hreim Örn Heimisson, hafa skipulagt þessa vinsælu tónleika síðastliðin þrjú ár. Þeir eru haldnir í garðinum að Skálholtsbraut 11 á fimmtudagskvöldi í tengslum við bæjarhátíðina og hafa notið mikilla vinsælda, með sívaxandi fjölda gesta.

Bókmenntafélagið Bergþóra, sem starfar undir Kvenfélaginu Bergþóru, hlýtur 150.000 krónur til að standa fyrir skáldakvöldi á aðventunni þann 11. desember á Hjarðarbóli. Viðburðurinn lofar góðri stemningu og áhugaverðum upplifunum fyrir bókmenntaunnendur.

Með þessari úthlutun vonast bæjarráð til að skapa enn betri skilyrði fyrir listsköpun og menningarviðburði í Ölfusi á komandi ári.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?