Vel heppnaðir Hafnardagar

Bæjarhátíðin Hafnardagar, sem haldin var síðastliðna helgi í Þorlákshöfn, tókst einstaklega vel. Reyndar var boðið upp á margvíslega dagskrá í heila viku enda veitti ekki af vikunni fyrir þann fjölda viðburða sem í boði voru. Á föstudagskvöldinu fjölmenntu íbúar í skrúðgöngur úr hverfum bæjarins. Hvert hverfi var skreytt í ákveðnum lit og í fyrsta skipti ákváðu íbúar úr dreifbýlinu að mæta í skrúðgönguna í fjólubláum skrúða og var það skemmtileg viðbót við skrautlega skrúðgönguna. Hvert hverfi bauð síðan upp á skemmtiatriði og var greinilega mikið lagt í hvert og eitt þeirra.

Meðal þess sem boðið var upp á um helgina var dorgveiðikeppni, siglingar, listasmiðjur, koddaslagur, handverksmarkaður, skemmtiatriði á sviði, sundlaugarpartý fyrir börnin, karókí og sýningar á ýmsum stöðum í bænum. Félagar úr Fornbílaklúbbi Íslands tóku virkan þátt í dagskránni og öll dagskráin var vel kynnt í Útvarpi Hafnardagar, sem var með útsendingu alla vikuna. Útpvarpið átti drjúgan þátt í að skapa réttu stemninguna, en Leikfélag Ölfuss hafði samið útvarpsleikþætti til að flytja og íbúar og fyrrum íbúar á öllum aldri koma að dagskrárgerð.

Skipuleggjendur hátíðarinnar þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hátíðinni lið með styrkjum og stuðningi, góðum hugmyndum eða vinnuframlagi. Án ykkar allra hefði hátíðin aldrei orðið jafn skemmtileg!

Barbara og RóbertHafnardagar 2010

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?