Vetrarstarfið að hefjast og ferskt grænmeti til sölu

Hlynur Sigurbergsson við grænmetisborðið
Hlynur Sigurbergsson við grænmetisborðið

Þá er vetrarstarfið að hefjast og mikið líf að færast í bæinn: börnin að hefja skólastarfið, maður að selja ferskt grænmeti og börnin farin að sækja sér bækur á bókasafnið.

Sumrinu er að ljúka og vetrarstarfið að hefjast með skólagöngu barna, skipulagi tómstundastarfs og annað sem fer að komast í fastar skorður. Margir hafa haft orð á því við undirritaða að Þorlákshöfn leggist hálfgert í dvala á sumrin. Íbúar eru duglegir að ferðast og því sé afskapega fámennt og rólegt hér á sumrin. Einhver örlítil breyting hefur þó orðið á því þar sem íbúar úr nærliggjandi byggðarlögum eru farnir að gera sér ferð til Þorlákshafnar að heimsækja sundlaugina og nokkur umferð gesta er í Unubakkann þar sem handverksfólkið hafa verið með rómaða starfsemi í sumar.

En nú færist heldur betur líf í bæinn. Börnin hafa verið dugleg að heimsækja bókasafnið að velja sér kjörbækur og fyrir framan ritfangaverslunina Allt og ekkert stendur maður að selja ferskt grænmeti. Þetta reynist vera Hlynur Sigurbergsson frá Garðyrkjustöðinni Kinn í Ölfusi. Hlynur keypti jörðina árið 2007 og hefur verið að undirbúa landið til ræktunar.  Í vor hóf hann síðan ræktun og er farinn að selja uppskeruna á Árborgarsvæðinu. Hlynur verður fyrir framan Allt og ekkert í dag og ætlar að koma aftur næsta fimmtudag með nýtt grænmeti og kryddjurtir.

Annar markaður verður fyrir framan íþróttahúsið á laugardaginn, en það er hinn árlegi markaður Knattspyrnudeildar Ægis. Auk fatnaðar verður hægt að kaupa frosinn fisk og humar.

Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi
Viltu koma frétt á framfæri? sendu hana á netfangið barbara@olfus.is eða hafdis@olfus.is

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?