Viðburðaríkur nóvember á bókasafninu

Börn úr fyrsta bekk í heimsókn á norrænu bókasafnavikunni
Börn úr fyrsta bekk í heimsókn á norrænu bókasafnavikunni

Mikið annríki hefur verið á bókasafninu það sem af er mánaðar. Nýjar bækur streyma inn og boðið hefur verið upp á fjölmargar sögustundir og fleira.

Nóvembermánuður er sérlega skemmtilegur mánuður hjá starfsfólki bókasafnsins þó mikið sé annríkið. í Þessum mánuði halda bókasöfn á norðurlöndum upp á norræna bókasafnaviku í samstarfi við Norrænu félögin. Bæjarbókasafn Ölfuss og bókasafn Grunnskóla Þorlákshafnar ákvaðu að standa saman að sögustundum og mættu allir nemendur yngsta og miðstigs grunnskólans í sögustund á bókasafnið. Elstu börnin í leikskólanum eiga eftir að koma, en þau ætla að heimsækja bókasafnið næstkomandi mánudag. Lesið hefur veirð fyrir börnin, bæði ljóð og brot úr skáldsögum og allt í sérlega huggulegu andrúmslofti þar sem kveikt er á kertum en slökkt á annarri lýsingu.

Hinum almenna íbúa bauðst síðan að koma á samverustund fimmtudaginn 17. nóvember þar sem eldri kór grunnskólans söng og flautaði nokkur lög, Ásgerður Eiríksdóttir las upp úr sögunni "Rokkað í Vittula" eftir finnska rithöfundinn Niemi og í lokin bauðst gestum að skoða sýningu Bjarna Joensen í Gallerí undir stiganum og gæða sér á piparkökum.

Sama kvöld nutu gestir síðan sérlega skemmtilegra tónleika Ylfinganna og Ragnheiðar Gröndal í Ráðhúskaffi. Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröðinni Tónar við hafið sem menningarnefnd stendur fyrir en næstu tónleikar Tónanna verða 28. desember í Þorlákskirkju.

Hér til hægri gefur að líta nokkrar myndir sem teknar voru við ofangreind tækifæri á síðustu vikum.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?