50 ára afmæli og nýjar sýningar

Boðskort Listasafn Árnesinga
Boðskort Listasafn Árnesinga
50 ára afmæli Listasafn Árnesinga
Á þessu ári munu allar nýjar sýningar sem verða opnaðar í Listasafni Árnesinga halda á lofti 50 ára afmæli listaverkagjafar sem lagði grunninn að safninu, en þann 19. október 1963 gáfu Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar Loftur og Bjarni Markús Jóhannessynir Árnesingum stóra málverkagjöf.

50 ára afmæli

og tvær nýjar sýningar verða opnaðar laugardaginn 9. mars kl. 15

Til sjávar og sveita: Gunnlaugur Scheving og Slangur(-y): Sara Riel

 

Á þessu ári munu allar nýjar sýningar sem verða opnaðar í Listasafni Árnesinga halda á lofti 50 ára afmæli listaverkagjafar sem lagði grunninn að safninu, en þann 19. október 1963 gáfu Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar Loftur og Bjarni Markús Jóhannessynir Árnesingum stóra málverkagjöf. Við það tækifæri sagði Bjarnveig m.a.:

„ Ég lít svo á að það sé mikils vert fyrir listmenningu þjóðarinnar að listasöfn séu staðsett sem víðast og vænti þess að íbúum hinna fögru sveita og þorpa austanfjalls verði það menningarauki að eignast þetta safn málverka sem er hið fyrsta staðsett utan Reykjavíkur. Og ekki síst vænti ég þess að skólar héraðsins kynni nemendum sínum verk þessara 17 listamanna.“

Efnt verður til afmælishátíðar helgina 19. – 20. október 2013 og verður dagskrá hennar kynnt nánar þegar nær dregur.

 

Í anda Bjarnveigar leggur Listasafn Árnesinga áherslu á fræðslu- og upplifunargildi þeirra sýninga sem opnaðar verða á árinu. Tvær sýningar Slangur(-y) og Til sjávar og sveita verða opnaðar næst komandi laugardag og eru valdar saman með það í huga að láta þær kallast á. Þær eiga það sameiginlegt að viðfangsefnin eru tengd daglegu lífi, umhverfinu, vinnu, ekki síst vinnu listamannsins og þó að áratugir aðskilji verkin gefur það umræðunni aukna dýpt.

 

Fyrsta sýningin af þriggja sýninga samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga, Listasafns Íslands og Listasafns Hornafjarðar verður opnuð næst komandi laugardag, 9. mars kl. 15.  Markmiðið með þessu samstarfi er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist og gefa gestum, gjarnan skólahópum, kost á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af.  Fyrsta sýningin ber heitið Til sjávar og sveita og tekur fyrir verk Gunnlaugs Scheving en hann var einn þeirra listamanna sem átti verk í stofngjöfinni fyrir 50 árum. Hann tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem fram komu í lok fjórða áratugarins þegar efnahagskreppa og þjóðfélagsátök beindu listamönnum inn á nýjar brautir. Landslagið var ekki lengur aðalviðfangsefnið heldur nánasta umhverfi og daglegt líf þar sem hversdagslegir hlutir, maðurinn og vinnan urðu hin nýju viðmið.  Verkin koma öll úr safneign Listasafns Íslands sem varðveitir mikið safn verka hans, þar á meðal mörg frumdrög að stærri verkum. Á sýningunni verða nokkur af risastórum  verkum Gunnlaugs en einnig minni verk, frumdrög og skissur. Þannig gefst tækifæri til að kynnast myndhugsun listamannsins og vinnuferli þar sem hann skoðar m.a. hvernig menn bera sig að við vinnu hvort heldur sjómaðurinn eða listamaðurinn. Verkn á sýningunni sýna hvernig listamaðurinn þróar hugmyndir sínar frá raunsæjum lýsingum af vinnandi mönnum til sjós yfir í táknrænar myndir af samlífi manns og náttúru.

 

Á sýningunni Slangur(-y) má sjá verk eftir Söru Riel sem er fædd árið 1980 og vakið hefur eftirtekt sem listamaður ekki síst vegna strætislistaverka sem finna má víða í Reykjavík og öðrum borgum heimsins. Verkin sem bera yfirskriftina Slangur(-y) eru ljósmyndir af graffítí-verkum sem hún vann víða um land á árinu 2006 og hafa verkin aldrei verið sýnd saman áður. Þau sýna hvernig Sara hefur þróað graffití-menninguna á sinn hátt meðal annars með því að færa hana frá strætum borga og út um sveitir landsins. Á ferð sinni graffaði hún slanguryrði og gerði tilraunir með leturtýpur og liti en leitaðist einnig eftir því að ná fram þeirri tilfinningu sem inntak orðanna fól í sér sem stundum gat vísaði til mismunandi skilnings. Verkið Lousy vísar  þannig bæði til lélegs ástands hússins en einnig þeirrar tilfinningar sem niðurníðsla hússins vekur. Tvíbentur skilningur felst líka í því að þrátt fyrir að Sara hafi graffað á verðlausa hluti, sem jafnvel lýta umhverfið og náttúruna, þá eru það vekin sjálf sem álitin eru skemmdarverk. Í formi ljósmynda á sýningu í listasafni gefa verkin síðan tilefni til enn frekari umræðu um margslungin ferli listsköpunar.

 

Sýningarnar munu standa til 2. júní, allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

 

 

Hveragerði, 6. mars 2013 

Inga Jónsdóttir safnstjóri

483 1727, 895 1369, inga@listasafnarnesinga.is

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?