Helgin framundan með Diddú, kosningum og jólasveinum

Diddú og drengirnir
Diddú og drengirnir

Margt er um að vera í Þorlákshöfn næstu helgi, sem er fyrsta helgin í aðventu.

Næsta helgi er fyrsta helgi í aðventu og verður þá mikið um að vera í Þorlákshöfn. Vart hefur farið framhjá neinum að kosið verður til stjórnlagaþings á laugardaginn, en kosningar fara fram í Versölum, Ráðhúsinu. Sama dag verða stórtónleikar í Þorlákskirkju klukkan 17, þar sem enginn önnur en stórsöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir ásamt blásarasextett flytur fallegar söngperlur fyrir einsöng og kór, og er það Söngfélag Þorlákshafnar sem annast kórsönginn undir stjórn Róberts Darling.

Á sunnudeginum verða síðan samkvæmt venju tendruð ljós á jólatré á Ráðhústorgi. Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur dagskrána með flutningi jólalaga kl. 18. Bæjarstjóri býður gesti velkomna og skólakórar Grunnskólans leiða fjöldasöng. Þá flytur forseti Kiwanis ávarp og líklega mæta nokkrir jólasveinar á svæðið. Landsbankinn og Ráðhúskaffi bjóða gestum upp á heitt kakó og smákökur.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?