Konudagur

torfbaer_030310
torfbaer_030310
Konudagur er fyrsti dagur góu samkvæmt fornu íslensku dagatali.  Sagt er að áður fyrr hafi húsfreyjur fagnað góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra.

 

Konudagur er fyrsti dagur góu samkvæmt fornu íslensku dagatali. Sagt er að áður fyrr hafi húsfreyjur fagnað góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra.  Þær áttu að fara fyrstar allra á fætur, ganga út fáklæddar fyrsta morgunn í góu og bjóða hana velkomna með vísu. 

Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu í bæinn;
vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.

Bændur hafi átt að gera húsfreyjum sínum eitthvað vel til á þessum degi.  Þess munu einnig dæmi að hlutverk hjónanna í þessum sið hafi verið hin gagnstæða.

Á konudaginn er við hæfi að menn gefi ástinni sinni blóm eða litla gjöf til tákns um ást sína.

Á síðari tímum hefur sú hefð komist á sums staðar á landinu að halda góugleði í tengslum við góu á sama hátt og þorrablót í tengslum við Þorra.   

Elstu bókfestu dæmi þess að orðið konudagur sé notað um fyrsta dag góumánaðar eru frá því um miðja 19. öld, en það gæti verið langtum eldra í talmáli. Góa er næstseinasti mánuður vetrarmisseris samkvæmt hinu forníslenska tímatali og nafnið sést í elstu handritum eða frá því um 1200. Óvíst er hvað orðið merkir upphaflega en orðsifjafræðingar hallast helst að því að það eigi eitthvað skylt við snjó.

Sú tilgáta fellur vel að stöðu hennar í ævintýralegri fornaldarsögu, þar sem faðir Góu er Þorri, afi hennar heitir Snær og langafinn Frosti en föðursystur Mjöll og Drífa. Þar er nafn hennar reyndar Gói. Eftir þeirri sögu strauk Gói brott með strák á Þorrablóti einu. Þorri lét halda blót til að leita um það frétta hvar hún væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót. Seinna breyttist nafnmyndin úr Gói í Góa.

Sennilega hafa menn í heiðnum sið haldið einhverja smáveislu í upphafi hinna gömlu vetrarmánaða. Þetta hverfur úr opinberu lífi við kristnitökuna en virðist hafa haldist við sumstaðar í heimahúsum. Frá lokum 17. aldar er til kvæði eftir séra Bjarna Gissurarson í Þingmúla um gömlu Góu sem gengur um bæi og skoðar í búrið hjá húsfreyju. Í bréfi frá séra Jóni Halldórssyni í Hítardal til Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn árið 1728, segir að bændur eigi að innbjóða Góu á sama hátt og húsfreyjur bjóði Þorra: ganga út fyrir dyr kvöldið fyrir góukomu og bjóða henni inn sem góðum virðingargesti með fögrum tilmælum um að hún væri sér og sínum létt og ekki skaðsöm. Þetta virðast vera leifar af beiðni til fornra vetrar- eða veðurvætta.


Góan er fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar eftir gömlu íslensku tímatali. Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna áður fyrr þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðirnar. Ýmsar veðráttuspár geymast í gömlum íslenskum vísum og hefur þjóðin tekið mark á þeim allt fram til þessa. Þar á meðal er þessi vísa:

Ef hún Góa öll er góð,
öldin má það muna,
þá mun Harpa hennar jóð
herða veðráttuna.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?