Nýjar vatnrennibrautir opnaðar í Sundlauginni í Þorlákshöfn
Síðastliðinn laugardag var mikil hátíð í Sundlauginni í Þorlákshöfn þegar tvær nýjar vatnrennibrautir, Slangan og Drekinn, voru formlega opnaðar. Það var við hæfi að Kári Böðvarsson, fulltrúi eldri borgara og fastagestur í sundlauginni, færi fyrstu ferðina niður brautina. Að því loknu fylgdu börn úr Grunnskóla Þorlákshafnar sem skemmtu sér konunglega.
Stemningin var frábær en mikil eftirvænting, spenna og gleði ríkti meðal gesta sem prófuðu nýju brautirnar. Að lokinni sundferð var öllum boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur.
Sundlaugin var vel sótt alla helgina og voru gestir sammála um að brautirnar væru glæsileg jólagjöf frá sveitarfélaginu til íbúa og gesta.
Við hvetjum alla til að koma og upplifa nýju vatnrennibrautirnar og njóta frábærrar sundupplifunar í hjarta bæjarins!
Við þökkum Tedda Owen kærlega fyrir þessar fallegu myndir sem voru teknar í tilefni af opnun vatnrennibrautanna.
