Rummungur ræningi, óskrældar kartöflur og galdrar

Leiksýning LÖ á Rummungi ræningja
Leiksýning LÖ á Rummungi ræningja

Síðastliðinn sunnudag frumsýndi Leikfélag Ölfuss gaman- og fjölskylduleikritið „Rummungur Ræningi.“

Síðastliðinn sunnudag frumsýndi Leikfélag Ölfuss gaman- og fjölskylduleikritið „Rummungur Ræningi.“  Sagan er eftir þjóðverjann Otfried Preussler og segir frá því þegar grimmasti og ógurlegasti ræninginn í öllum ræningjaskóginum rænir kaffikvörn sem drengirnir Sæli og Kaspar gefa ömmu sinni í afmælisgjöf. Við þetta fer af stað sérlega skemmtileg, spennandi og svolítið ógnvekjandi viðburðarás. Áhorfendur fylgjast með drengjunum plata Rummung, lenda í klónum á honum og kynnast norninni Þeófílíu Plúmmendrúpp.  Óskrældar kartöflur koma við sögu, talandi froskur og galdraspegill og ýmist er galdrað, töfrað, snúið útúr eða teknar skýrslur.

Leikstjóri sýningarinnar er Ármann Guðmundsson, en þetta er í annað skipti sem Ármann leikstýrir Leikfélagi Ölfuss. Hann leikstýrði áður Stútungasögu, leikriti eftir hann sjálfan ásamt fleirum. Þar kom í ljós að hann er frábær textasmiður.  Í þessu leikverki njóta þeir hæfileikar hans sín vel, því Ármann gerði nýja þýðingu af leikverkinu um Rummung ræningja. Textinn er sérlega lipur og fyndinn, bæði fyrir börn og fullorðna.  Mikil vinna liggur að baki uppsetningu sýningarinnar sem fram fer í Versölum í Ráðhúsi Ölfuss. Hljóð og ljós skipta mikllu máli fyrir framvinduna og miklar tilfærslur er á sviðinu milli atriða.

Meðfylgjandi myndir tók Kristján Fenger

Barbara Guðnadóttir

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?