Tónar og Trix gefa út plötu með landsþekktum tónlistarmönnum.

Tónar og Trix
Tónar og Trix
Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá Tónum og Trix en eftir að hafa æft stíft síðan í janúar lauk hópurinn við að taka upp plötu um miðjan mars á stormasömum sunnudegi í Þorlákskirkju.

Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá Tónum og Trix en eftir að hafa æft stíft síðan í janúar lauk hópurinn við að taka upp plötu um miðjan mars á stormasömum sunnudegi í Þorlákskirkju. Þá hafði kirkjan þjónað því hlutverki að vera stúdíó í tvo daga þar sem allt gekk vonum framar og mikil gleði í hópnum, enda gott að vera í krikjunni.

Í kjölfarið hóf Stefán Örn, upptöku- og hljóðvinnslumaður vinnu við að hljóðblanda og fínpússa allar upptökur og fer platan því að verða tilbúin til framleiðslu erlendis. Á plötunni verður að finna góða sumarsmelli og kemur hún til með að henta einstaklega vel í bílnum á leiðinni í útilegur í sumar, þar sem ungir sem aldnir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og geta sungið hástöfum með.

Þetta er mjög kostnaðarsamt verkefni og til þess að auðvelda vinnuna við að fjármagna verkefnið hafa Tónar og Trix sett af stað hópfjármögnun á karolinafund.com. Þar er hægt að leggja verkefninu lið með fjárhæð að eigin vali og fá í staðinn til dæmis einn eða fleiri miða á tónleika, geisladiska, boð í útgáfupartý eða hreinlega ráða Tóna og Trix til að koma fram í veislum eða partýi. Í þessu samhengi á við að margt smátt gerir eitt stórt og er tónlistarhópurinn með eindæmum þakklátur ef sem flestir sæu sér fært að aðstoða þau á þennan hátt. Fyrir þá sem ekki hafa tök á að nota þennan vettvang en vilja leggja verkefninu lið er hægt að hafa samband við stjórnand hópsins, Ásu Berglindi um netfangið asa@gamlabio.is eða við einhvern af meðlimum Tóna og Trix. Einnig munu Tónar og Trix syngja lög af væntanlegri plötu í sumarkaffinu í Ráðhúsinu og geta þar aðstoðað áhugasama.

Ákveðið hefur verið að halda tvenna útgáfutóneika. Í Þorlákskirkju sunnudaginn 31. maí og í Gamla bíó í Reykjavík þriðjudaginn 2. júní. Þar munu allir hæfileikaríku og frábæru tónlistarmennirnir sem umvefja Tóna og Trix á pötunni koma fram. Gestasöngvarar eru Salka Sól Eyfeld, Unnsteinn Manúel Stefánsson, Jónas Sigurðsson, Kristjana Stefánsdóttir og Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bógómil Font. Hljómsveitina skipa Tómas Jónsson á hljómborð, Birgir Steinn á kontrabassa, Óskar Kjartansson á trommur og Sigtryggur Baldursson á slagverki. Einnig kemur Samúel J. Samúelsson fram á básúnu og Unnur Birna Björnsdóttir á fiðlu. Eins og sjá má verður um einstakan viðburð að ræða og því tilefni til að tryggja sér miða á karolina fund og eiga öruggt sæti á útgáfutónleikunum.

Tónlistarhópurinn Tónar og Trix er fullur af eftirvæntingar fyrir áframhaldandi mússíkalska ævintýraför og hlakkar til að hafa sem flesta með í þessu tónlistarævintýri.

Hér er hægt að fara inn á Karolina fund söfnunina https://www.karolinafund.com/project/view/843

Og á facebook síða Tóna og Trix https://www.facebook.com/pages/T%C3%B3nar-og-Trix/467109643343293?fref=nf
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?