Nýlega bárust niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins fyrir Grunnskólann í Þorlákshöfn. Niðurstöðurnar gefa skýra mynd af því að foreldrar meta skólastarfið að miklu leyti mjög jákvætt og sýna um leið hvar við getum haldið áfram að þróa og bæta.
Ánægja foreldra með stjórn skólans, kennslu, viðhorf starfsfólks og líðan nemenda er umtalsvert meiri en landsmeðaltal. Einkum vekur athygli hve margir foreldrar telja börnum sínum líða vel í skólanum, að námsþörfum sé mætt og að starfsfólk beri virðingu fyrir nemendum.
Við erum sérstaklega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og lítum á niðurstöðurnar sem hvatningu til áframhaldandi umbóta. Skólinn stefnir að því að vera samfélag þar sem allir finna til öryggis, eru velkomnir og fái að blómstra. Þessi könnun staðfestir að við erum á réttri leið.
Við þökkum öllum foreldrum sem svöruðu könnuninni – þátttaka þeirra skiptir sköpum fyrir umbótastarf skólans.
Niðurstöðurnar í heild sinni má finna á heimasíðu grunnskólans undir link um sjálfsmat.
Foreldrakönnun Skólapúlsins 2025 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn.