Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss 2017

Rekstur Sveitarfélagsins Ölfuss gekk vel á árinu og var samstæða sveitarfélagsins rekin með rétt um 152 m.kr. hagnaði þrátt fyrir gjaldfærslu í rekstri upp á tæpar 67 m.kr. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð á árinu tengt lífeyrissskuldbindingum starfsmanna.
Helstu niðurstöðutölur ársreiknings Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2017 voru eftirfarandi.
Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Ölfuss A og B hluta námu alls um 2.274 m.kr. á árinu 2017.
Þar af voru rekstartekjur A hluta um 2.067 m.kr. og B hluta um 207 m.kr.
Rekstrargjöld A og B hluta urðu alls 2.122 m.kr. Þar af voru rekstrargjöld A hluta 1.941 m.kr. og B hluta um 181 m.kr.
Rekstarniðurstaða A og B hluta varð því jákvæð um tæpar 152 m.kr. þar af var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 126 m.kr. sem er um 17 m.kr. betri niðurstaða en á árinu 2016 þrátt fyrir þessa miklu gjaldfærslu vegna Brúar lífeyrissjóðs.
Rekstrarniðurstaða B hluta var jákvæð um 26 m.kr. en á árinu 2016 var hún jákvæð um rúmar 48 m.kr.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar um 4.464 m.kr.
Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 478 m.kr. Þar af í hafnarmannvirkjum fyrir 213 m.kr. og fasteignum fyrir 194 m.kr. Önnur fjárfesting nam 71 m.kr.
Langtímaskuldir samstæðunnar í árslok voru 1.258 m.kr. og lækka um 31 m.kr. milli ára.
Tvö langtímalán voru tekin á árinu alls að upphæð tæpar 48 m.kr. vegna kaupa á félagslegum íbúðum. 
Lífeyrisskuldbindingar í árslok voru 428 m.kr. og hækka um 12 m.kr. milli ára.
Langtímaskuldir og skuldbindingar í árslok voru því alls um 1.686 m.kr.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins þann 31. desember 2017 var 77.89% en var 71.96% þann 31. desember 2016 og er meginskýring hækkunar vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.
Skuldaviðmið hefur lækkað stöðugt síðustu árin frá því sem það var hæst í lok ársins 2009 en þá var það 198% af reglubundnum tekjum. Gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri sveitarfélagsins á síðustu tveimur árum og sérstaklega á því sem nú er liðið. Sterkur grunnur hefur verið lagður fyrir frekari framfarir í sveitarfélaginu á komandi árum og tækifærin til vaxtar og eflingar eru á mörgum sviðum.
Rekstur sveitarfélagsins hefur verið í jákvæðri þróun og það alls ekki á kostnað þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum. Þjónusta hefur verið aukin á ýmsum sviðum svo sem með tómstundastyrkjum til barna og unglinga og greiðslu fyrir námsgögn grunnskólabarna sem teknar voru upp á árinu svo eitthvað sé nefnt. 
Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði töluvert á árinu og voru þeir þann 1. janúar 2018 2.111 en voru 2.005 þann 1. janúar 2017 og fjölgaði því um 104 á árinu. Íbúar um áramót hafa aldrei verið fleiri í sveitarfélaginu og það má alveg leiða líkum að því að kynningarátakið „Hamingjan er hér“ hefur haft sitt að segja varðandi þessa mjög svo ánægjulegu íbúaþróun og bætta ásýnd sveitarfélagsins á öllum sviðum.
Bæjarstjórn Ölfuss þakkar öllum starfsmönnum sveitarfélagsins þátt þeirra í þeirri þjónustu sem það veitir íbúum og góða rekstrarniðurstöðu ársins.
Þá þakkar bæjarstjórn endurskoðendum sveitarfélagsins fyrir þeirra störf sem veita stjórnendum og starfsmönnum stuðning og aðhald í sínum störfum.

Ársreikningar 2017

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?