Mótvægisaðgerðir til að vinna gegn kólnun hagkerfisins í kjölfar COVID veirufaraldurs

Á seinasta fundi sínum sem haldinn var fimmtudaginn 26. mars. sl. ræddi  bæjarstjórn stöðu mála í sveitarfélaginu með hliðsjón af viðbrögðum vegna COVID-19 veirunnar.

Afgreiðsla var svohljóðandi:

Bæjarstjórn ræddi þá áskorun sem sveitarfélagið stendur nú frammi fyrir vegna COVID-19 faraldursins sem nú gengur yfir heimsbyggðina.  Enn sem komið er hafa fáir veikst í sveitarfélaginu og tiltölulega fáir eru komnir í sóttkví. 

  1. Þjónusta og gjöld á íbúa og fyrirtæki:

Sveitarfélagið Ölfus hefur í einu og öllu fylgt tilmælum heilbrigðisyfirvalda og er nú svo komið að engin af stofnun sveitarfélagsins starfar á þann máta sem þær gera öllu jöfnu.  Áfram verður sú leið farin að veita svo mikla þjónustu sem mögulegt er innan þess ramma sem yfirvöld setja. Ljóst er að þjónusta hefur víða verið skert.

Bæjarstjórn þakkar starfsmönnum sínum og þjónustuþegum fyrir skilning og sveigjanleika í þeim stóru verkefnum sem takast þarf á við í rekstri sveitarfélagsins á tímum heimsfaraldurs. Bæjarstjórn er meðvituð um áhrif faraldursins á íbúa og fyrirtæki og vil leita leiða til að milda áhrif COVID faraldurs á heimili í sveitarfélaginu.  Með það fyrir augum samþykkir bæjarstjórn að:

  • veittur   verði   allt   að   100%   afsláttur   af   greiðsluþátttöku   foreldra   í   leikskólum, frístundaheimilum  og  annarri  dvöl  barna  í  starfi  á  vegum  sveitarfélaga,  taki  foreldrar ákvörðun um að nýta ekki pláss samfellt í heila viku.

  • Þegar tímabundnar aðstæður, svo sem sóttkví eða grunur um smit, valda því að íbúar (foreldrar  o.fl.)  geta  einungis  nýtt  að  hluta  þá  grunnþjónustu  sem  er  í  boði,  nái greiðsluhlutdeild einungis til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt.  Þar með falli niður öll gjöld þann tíma sem þjónusta er ekki veitt.

  • Ekki verður sendur út reikningur vegna þjónustu leik- og grunnskóla 1. apríl enda hefur starfsemi raskast mikið á þessum tíma og vegna álags hefur ekki verið unnt að greina kostnaðarþáttöku hvers og eins miðað við nýtta þjónustu.  Kostnaðarþátttaka þennan tíma verður leiðrétt og aðlöguð um næst þegar sendur verður út reikningar.

  • Fasteignagjöld verða innheimt með hefðbundnum hætti en næstu dagar nýttir til að meta með hvaða hætti best verður staðið endurskoðun á álagningu fasteignagjalda hjá þeim sem verða fyrir mesta efnahagslega áfallinu vegna COVID faraldursins. 

 Ofangreindar ákvarðanir eru  tímabundnar  og  gilda  til  loka  maí.  Endurskoðun  fari  fram  að  teknu  tilliti  til aðstæðna og verði fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí n.k.

  1. Unnið gegn kólnun hagkerfisins:

Ljóst er að efnahagsleg áhrif COVID veirunnar verða nokkur.  Atvinnuleysi mun að öllum líkindum vaxa tímabundið, sérstaklega innan ferðaþjónustunnar.  Þá verður að teljast líklegt að ráðstöfunartekjur heimila dragist tímabundið saman.  Bæjarstjórn telur sveitarfélagið Ölfus vel í stakk búið til að milda þessi áhrif.  Með það fyrir augum samþykkir bæjarstjórn að:

  • allra leiða verði leitað til að flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru.  Með það að markmiði felur bæjarstjórn bæjarstjóra að leggja minnisblað fyrir bæjarráð þar sem framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins er lögð fram með endurskoðuðum dagsetningum.

  • kallað verði eftir því að ríkið komi með auknum krafti að hafnarframkvæmdum í Þorlákshöfn sem geri mögulegt að þjónusta allt að 180 metra löng og 34 metra breið skip.  Sýnt hefur verið fram á að slík framkvæmd er ein af þeim allra þjóðhagslega hagkvæmustu framkvæmdum sem hægt er að grípa til.  Á það ekki hvað síst við um ferðaþjónustu enda hafa aðilar þegar sýnt því áhuga að taka upp reglulegar siglingar með vörur og farþega á Bretlandsmarkað sem og meginland Evrópu.

  • kallað verði eftir því að ríkið auðveldi framgang mála í gegnum eftirlitsstofnanir sínar svo sem Umhverfisstofnun, skipulagsstofnun og fl.  Eðlilegt og sanngjarnt er í ástandi sem nú að þessum stofnunum verði gefin tiltölulega þröngur rammi til ljúka sinni aðkomu að málum.  Til grundvallar þessu eru milljarða framkvæmdir í umhverfisvænni matvælaframleiðslu sem í alla staði er jákvætt að flýta þegar svo árar sem nú.

  • skoðað verði með hvaða hætti hægt verður að styðja við bakið á fyrirtækjum í sveitarfélaginu sem verða fyrir tímabundnum afleiðingum af kólnun hagkerfisins vegna COVID faraldursins.  Slíkt þarf að vera með opnum og sanngjörnum hætti og þess gætt að eitt gangi yfir alla.  Í þessu samhengi þarf ma. að horfa til frestunar á fasteignagjöldum og fl.

  • kanna forsendur þess að ná samstarfi við fyrirtæki í Sveitarfélaginu um stofnun Þekkingarseturs sem sérstaklega verður falið að vinna að nýsköpun og styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem eru í, eða hyggja á, rekstur í sveitarfélaginu.  Verði þar ekki síst horft til fyrirtækja á sviði umhverfisvænnar matvælaframleiðslu.  Bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að við stofnun Þekkingarsetursins verði gerður samstarfssamningur við SASS um að vista verkefni tengt orkufrekri matvælaframleiðslu þar.  Bæjarstjórn samþykkir að verja allt að 6 milljónum til undirbúnings að stofnun og bindur vonir við að framlög fyrirtækja og ríkisins verði með þeim hætti að verkefnið fái framgang.

Ofangreindar aðgerðir eru séðar sem fyrsta skref í viðbrögðum Sveitarfélagsins Ölfus og útiloka ekki á neinn máta aðrar aðgerðir.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?