Spilaklúbbur, tuskuóð húsmóðir, ein sem vill hitta karla og suðræn sjarmatröll

Makalaus sambúð_Leikfélag Ölfuss
Makalaus sambúð_Leikfélag Ölfuss
Það var mikið hlegið á sýningu Leikfélags Ölfuss síðastliðna helgi, þegar leikfélagið frumsýndi gamanleikinn Makalaus sambúð eftir Neil Simon
Það var mikið hlegið á sýningu Leikfélags Ölfuss síðastliðna helgi, þegar leikfélagið frumsýndi gamanleikinn "Makalaus sambúð" eftir Neil Simon.  Með þessu verki sannast að ef sagan er nógu smellin, snertir eitthvað sammannlegt og tímalaust og nær að fanga kómískar hliðar mannlífsins, þá mun hún lifa.  Neil Simon skrifar leikverkið „The odd couple“ á sjötta áratugnum. Eftir margar uppfærslur á sviði, bíómynd og sjónvarpsþætti, snýr hann upprunalegu leikverkinu sem fjallaði um tvo mjög svo ólíka karlmenn sem fara að búa saman, upp á kvenpersónur og það er sú gerðin sem við fáum að sjá í Þorlákshöfn. 

Fyrir sýningu voru miklar væntingar hjá undirritaðri, enda Leikfélag Ölfuss búið að sýna fram á undanfarin ár að það leggur mikinn metnað í sýningarnar.  Í þetta sinn fékk leikfélagið Guðmund Lúðvík Þorvaldsson til að leikstýra, en þetta er í fyrsta skipti sem hann vinnur með leikfélaginu og er gaman að lesa í leikskránni að hann gerði sér enga grein fyrir því á hverju hann gæti átt von þegar hann mætti á svæðið.  Skemmst er að geta þess að Guðmundur fer fögrum orðum um vinnuna með leikfélaginu.

En svo var það sýningin.  Sýningarstjóri, Hulda Gunnarsdóttir hélt stutta tölu áður en sýning hófst, fór yfir þetta helsta, það þarf jú að brýna fyrir fólki að slökkva á símum og svoleiðis. Þetta gerði hún röggsamlega, kynnti leikverkið og bauð gestum að hlæja af sér rassgatið.  Hún uppskar hlátur og það er í raun það sem við gerðum lungann úr sýningunni og það er ljúft og gott að hlæja, sumir segja að það lengi lífið.  Ég mæli því með að fólk fari á leiksýninguna, þó ekki væri nema af heilsufarsástæðum.

Leikritið er þýtt af Ásgeiri Sigurvaldasyni en staðfært af leikfélögum til að ná því besta úr textanum.  Það er sérlega vel heppnað og koma skemmtilegar vísanir í okkar umhverfi.  Allir leikarar standa sig vel í sínum hlutverkum en eins og gengur í farsa, kynnumst við mismunandi típum sem allar eru ýktar í túlkun leikenda.  Sviðsmyndin er skemmtilega útfærð.  Stórt borð sem nýtist sem spilaborð og matarborð fyllir annan helming sviðsins og þaðan er gengið inn í eldhús. Þangað skutlast íbúar og gestir gjarnan, sérstaklega ofurhúsmóðirin sem leikin er af Ástu Margréti Grétarsdóttur, sem fer á kostum í hlutverki sínu.  Hún leikur Elísabetu, algerlega tuskuóða ofurhúsmóður, alls ekki manneskja sem mann langar til að deila íbúð með, en það verður þó hlutskipti vinkonu hennar sem leggur ekkert upp úr því að ganga frá eða laga til í kringum sig, eldar helst ekki mat og langar eiginlega bara til að njóta lífsins, hafa gaman og hitta karlmenn öðru hvoru.  Magnþóra Kristjánsdóttir skilar hlutverki þessa íbúðaeiganda mjög vel.  Raunar standa allir leikararnir sig vel og ná að koma sínum persónum vel til skila.  Sumir persónanna eru þó eftirminnilegri en aðrar og þá komum við að karlmönnunum.  Spánsku sjarmatröllin, brúnir og með hreiminn á hreinu, ná að heilla áhorfendur líkt og konurnar í spilaklúbbnum.

Við vorum tvö fullorðin og eitt barn saman á þessari sýningu og skemmtum okkur öll stórkostlega.  En við hlógum ekki endilega öll á sama tíma.  Þetta er skemmtileg sýning sem fólk ætti ekki að láta framhjá sér fara því það er svo gott og gaman að hlæja.

Barbara Guðnadóttir

Myndirnar voru teknar af Róbert Karli Ingimundarsyni á æfingum leikfélagsins.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?