Sunnlendingar áhugasamir um stækkun hafnar í Þorlákshöfn

Hofnin_breytingar_2014
Hofnin_breytingar_2014

Undanfarna mánuði hafa forsvarsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss, í samstarfi við SASS, unnið að því að kynna mikilvægi þess að fara í viðhaldsframkvæmdir og stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn.  Lengi hafa verið uppi áform um að byggð yrði stórskipahöfn í Þorlákshöfn.  Það er gríðarstórt verkefni, sem mikilvægt er að áfangaskipta.  Búið að móta fyrsta áfangann í því verkefni sem miðar að því að bæta þjónustuhæfni hafnarinnar nú þegar, auk þess að farið verði í löngu tímabært viðhald hafnarmannvirkjanna.

Í byrjun árs var ákveðið að skoða nýja möguleika í þróun og uppbyggingu hafnarinnar og var ákveðið að fá siglingasvið Vegagerðarinnar til að útfæra frumdrög að þeim hugmyndum.   Horft er til þess að fara í viðhaldsframkvæmdir á gömlu kerjabryggjunni á Suðurvarargarði og viðlegukanti Svartaskersbryggju, en elsti hluti hennar er frá árinu 1974.  Þil bryggjunnar eru farin að tærast mikið og fylling er farin að renna undan dekki hennar á nokkrum stöðum.  Með því að laga bryggjurnar, dýpka svæðið fyrir framan þær, fjarlægja það sem eftir er af Norðurvararbryggjunni og hlaða öldudempandi fláa, fæst örugg höfn sem getur tekið á móti allt að 180 m löngum skipum, en í dag eru lengstu skipin sem koma í höfnina um 120 metra löng.  Það er ekki bara framþróun í vöruflutningum, stærri skip og nákvæmari stjórntæki sem kalla á bætta hafnaraðstöðu, heldur líka þróun á umbúðum og kælitækni, breyttar neysluvenjur og breyttar þarfir viðskiptavina skipafélaganna.

Frumkostnaðaráætlun Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir tæplega tveggja milljarða króna kostnaði við heildarframkvæmdina.  Af þessari fjárhæð má ætla að ekki minna en 60 prósent sé vegna viðhalds sem nauðsynlegt er að fara í sem allra fyrst til að tryggja öryggi hafnarinnar.  Það má því segja að vísir að stórskipahöfn fáist í Þorlákshöfn fyrir ævintýralega lágt verð og tækifærið til þess er núna.  Með því að horfa fram í tímann og skoða kosti þess að stækka höfnina, ekki einungis fyrir Þorlákshöfn og Ölfusið, heldur líka til hagsbóta fyrir fyrirtæki á Reykjanesinu og stórum hluta Suðurlands, verður að horfa til þeirra margfeldisáhrifa sem aukin umsvif við höfnina munu hafa.

Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að farið verði í atvinnuskapandi aðgerðir á Suðurlandi, aðgerðir sem nýtist svæðinu beint.  Með stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn er stigið mikilvægt skref í þá átt að laða að fyrirtæki og skapa möguleika til atvinnuuppbyggingar fyrir allt Suðurland og Suðurnesin.  Stækkun hafnarinnar kemur til með að efla til muna starfsemi við höfnina sem nú þegar er flokkuð sem stór fiskiskipa- og flutningahöfn.  Ný tækifæri verða til fyrir flutningafyrirtæki sem sigla með vörur til inn- og útflutnings til og frá Þorlákshöfn auk þess sem hægt verður að taka á móti meðalstórum skemmtiferðaskipum.

Hugmyndin um stækkun hafnarinnar hefur verið kynnt fyrir stjórn SASS sem sýndi verkefninu mikinn áhuga.  Sveitarfélagið ásamt atvinnuráðgjafa hjá SASS hafa unnið greinarsgerð til að kynna verkefnið auk þess sem nú er unnið að gerð innviðagreiningar um Ölfusið, Árnessýslu og mögulegt áhrifasvæði til vesturs og austurs.  Innviðagreiningin ásamt breytingum á höfninni, er liður í að gera Suðurlandið að spennandi stað undir atvinnustarfsemi fyrir ný fyrirtæki.


Hér má finna greinargerð um stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?