Það er bjart yfir málefnum eldri borgara

Það er bjart yfir málefnum eldri borgara.

Sveitarfélagið Ölfus hefur í gegnum tíðina haft mikinn metnað þegar kemur að þjónustu við aldraða. Reyndar er það svo að fagleg ábyrgð á málaflokknum er ekki beint hjá sveitarfélaginu heldur innan byggðasamlags. Í samþykkt sveitarfélagsins um fyrirkomulag stjórnsýslu segir: „...framkvæmdastjóri Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings veitir stofnunum/verkefnum sem undir það falla faglega forystu.“ Í þessu er fólgið að td. Nían, Viss og íbúðakjarninn við Selvogsbraut (Sambýlið) lúta faglegri yfirstjórn Skóla- og velferðarþjónustunnar. Sveitarfélagið Ölfus greiðir hinsvegar kostnaðinn af rekstrinum og hefur þannig fjárhagslega umsjón.

Við viljum öll gera vel

Málefni eldri borgara eru okkur öllum hugleikin. Við viljum gera vel fyrir þá íbúa sem á undan fóru og skópu það samfélag sem við nú njótum. Í öllu starfi innan sveitarfélagsins finna starfsmenn þennan vilja, bæði hjá kjörnum fulltrúum og almennum bæjarbúum. Þannig hefur það lengi verið.

Hver á hvað

Í umræðum um málefni eldri borgara gerist það oft að fólk blandar saman ábyrgð ríkisins og ábyrgð sveitarfélaga. Það er nefnilega svo að ábyrgð sveitarfélags er frekar léttvæg í samanburði við ábyrgð ríkisins. Í grófum dráttum er það svo að sveitarfélagið í gegnum Skóla- og velferðarþjónustu Árnessýslu er ábyrgt fyrir félagslegri heimaþjónustu, tómstundastarfi, ferðaþjónustu, húsnæðismálum og félagslegri ráðgjöf. Ríkið ber hinsvegar alla ábyrgð á dvalarrými, hjúkrunarrými, hvíldarinnlögnum og heimahjúkrun. Eigi vel að takast til þarf því samstillt átak.

Hvað erum við að gera núna

Á seinustu árum hefur orðið mikil breyting á viðhorfum til málefna eldri borgara. Aukin áhersla hefur verið lögð á að styðja þá til sjálfstæðrar búsetu, heilsueflingu, félagslegrar virkni og fl. Í þeim tilgangi og í samræmi við þau lög sem eiga við um málefni eldri borgara hafa starfsmenn sveitarfélagsins nú þegar hafið vinnu við heildarendurskoðun allrar þjónustuþátta er snúa að eldri borgurum. Fyrstu skrefin voru einmitt tekin þegar Eyrún Hafþórsdóttir yfirmaður þessara mála fundaði á Egilsbraut 9 ásamt Elliða Vignissyni bæjarstjóra með eldri borgurum. Í framhaldi af því var fundað með starfsmönnum vegna þessa sama. Samhliða var kynnt hönnun að þeirri miklu húsnæðisstækkunar  sem nú er verið að ráðast í sem er forsenda þess að hægt sé að auka enn frekar alla dagþjónustu.

Meðal þeirra atriða sem nú þegar er hafin vinna við er:

Stefna.

Setja upp aðgengilega stefnu með leiðarljósum, markmiðum og leiðum til að ná henni. Setja áherslu á forvarnir og velferðartækni út frá núverandi aldurssamsetningu.

Nýtt skipurit.

Gera nýtt skipurit og endurskoða starfslýsingar þar sem einn ákveðinn starfsmaður er andlit/málsvari fyrir þjónustuna með heildarsýnina yfir málaflokkinn. Þetta verður unnið samhliða stefnu.

Velferðartækni.

Móta stefnu um velferðartækni sem part af heildarstefnu. Horft er til aukinnar áherslu á félagslegan hluta þjónustunnar, innleiðingu samskiptatækni sem eykur öryggistilfinningu eldri borgara og margt fl.

Aukið samstarf.

Verið er að leggja grunn að auknu samstarfi á milli allra aðila sem að þjónustunni og eldri borgurum koma innan og utan sveitarfélagsrammans. Lykilorðið er "teymisvinna". Settar verða upp verklagsreglur s.s um samvinnu og jákvæð samskipti við þjónustuþega og milli starfsmanna.

Öldungaráð. Öldungaráðið er og mun verða afar mikilvægur þáttur í stefnumótunarvinnu. Áfram þarf að nýta þá þekkingu og reynslu sem þar liggur.

Auka sýnileika.

Setja reglulega fréttir inn á heimasíðuna hjá sveitarfélaginu. Gera öldrunarþjónustuna sýnilegri, t.d með stofnun facebooksíðu mögulega í samvinnu við félag eldri borgara þar sem settar eru reglulega inn fréttir og upplýsingar um það sem er í gangi hverju sinni. Auka þarf upplýsingagjöf til eldri borgara til að mynda með því að útbúa prentaðan bækling um þá þjónustu sem er í boði, hvar sótt er um og hvert á að hafa samband.

 

Undirbúningur þessarar vinnu er unninn af starfsmönnum sveitarfélagsins með aðkomu Sólrúnar Gunnarsdóttur, sérfróðs öldrunarráðgjafa hjá fyrirtækinu „Aldur er bara tala“. Á fyrstu skrefunum verður þess vandlega gætt að hagsmunaaðilar s.s öldungaráð, starfsmenn, kjörnir fulltrúar og fl. hafi ríka aðkomu að þessari vinnu.

 

Það er bjart yfir starfi eldriborgara

Þrátt fyrir ríkan vilja og stór skref má ætíð gera betur. Við vitum sem er að hér í Þorlákshöfn eins og víða um land er vaxandi þörf fyrir aukna heimahjúkrun og hjúkrunarými. Það er slagur sem taka þarf við ríkið. Á meðan þurfum við að halda áfram þeirri uppbyggingu sem er búin að eiga sér stað. Samstaða, samvinna og virðing er forsenda árangurs í þessu eins og svo mörgu.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?