Niðurstöður umræðna á Skólaþingi sveitarfélaga 2009

IMG_0183
IMG_0183

Samantekt niðurstaðna og tillagna frá umræðuhópum á skólaþingi sveitarfélaga 2. nóvember 2009.

Niðurstöður umræðna á Skólaþingi sveitarfélaga 2009

 

SAMANTEKT NIÐURSTAÐNA OG TILLAGNA FRÁ UMRÆÐUHÓPUM Á SKÓLAÞINGI SVEITARFÉLAGA  2. NÓV. 2009

Geta sveitarfélög og skólar aukið gæði og þjónustu í núverandi árferði? var sú spurning sem lögð var til grundvallar í umræðuhópum fyrir hádegi. Undirspurningar voru tvær: Hvernig má endurskipuleggja starf skóla án þess að rýra gæði eða þjónustu og: Hvernig má tryggja að fagleg og rekstrarleg forysta í skólamálum haldist í hendur. Umræðuhópar eftir hádegið fjölluðu um Hvernig kennara og kennaramenntun þurfum við? með þessum undirspurningum: Hverjar eiga áherslur í kennaramenntun og kennarastarfi að vera og Hvernig má tryggja markvissa og skilvirka símenntun kennara.  Meðfylgjandi eru samanteknar niðurstöður og tillögur hópanna sem störfuðu eftir hádegi um kennaramenntun og símenntun.

Hverjar eiga áherslur í kennaramenntun og kennarastarfi að vera til að uppfylla markmið laganna?

Inntaka í kennaranám. Hvernig löðum við að hæfasta fólkið í námið og hverjar eru inntökukröfur í kennaranám á Íslandi t.a.m. í tengslum við færni í íslensku? Þau viðhorf heyrast til kennaranámsins að alltof margir komist inn og það sé létt háskólanám. Því þarf að breyta. Í Finnlandi komast einungis 10% umsækjenda að. Þarf einnig að skoða kynjahlutföll þeirra sem eru teknir inn í kennaranám. Bakgrunnur þeirra sem fara í kennaranám  er áhyggjuefni – skortur á nemendum af raunvísinda- og náttúrufræðibrautum; of einsleitur hópur. Auka þarf sveigjanleika í mati umsækjenda um kennaranám á fyrra námi og reyna að auka fjölbreytni meðal kennaranema. Kennaranám á að vera fyrir þá sem ætla sér að verða kennarar en ekki stutt kennsluréttindanám í lok sérgreinar.

Hvaða kröfur verða gerðar til menntunar skólastjórnenda við lengingu kennaranáms í 5 ár? B.ed+stjórnun? M.ed+stjórnun? Eingöngu M.ed?

Áherslur í kennaranámi. Mikilvægt að kennaraháskólar hafi samráð við talsmenn skóla- og fræðslustjóra um áherslur í kennaranámi. Leita þarf til kennara um áherslur í kennaranámi, s.s. í tengslum við agastjórnun, samstarf heimila og skóla, vinnu með fjölbreyttum nemendahópi, vinnustaðaþjálfun o.fl. Mikilvægt að allir hagsmunaaðilar komi að mótun námskrár.

Útgangspunktur kennaramenntunar er nálgunin við nemandann í stað fagsins. Auka þarf áherslu á kennslufræði  - miðlun þekkingar. Hafa þarf menntastefnu landsins að leiðarljósi við val á áherslum í kennaranámi. Áherslur þurfa að vera í samræmi við raunverulegar þarfir skólanna/samfélagsins. Auka áherslu á sam-/teymisvinnu bæði í námi og fyrstu starfsárin.

Í kennaranámi þarf að leggja áherslu á bæði faggreinar og uppeldis- og kennslufræði. Faggreinakennari þarf að vera mjög sterkur í faginu og þekkja fjölbreyttar leiðir til þess að miðla því. Ekki ætti að hefja sérhæfingu of snemma í kennaranáminu. Leggja meiri áherslu á listgreinar og flétta skapandi starf inn í allar námsgreinar. Efla kennara til sjálfstæðis, efla gagnrýna hugsun þeirra og skapandi kennslu. Skóli án aðgreiningar krefst góðrar kennslufræðilegrar þekkingar. Leggja áherslu á fjölbreytni kennsluaðferða/-hátta og námsmatsaðferða sömuleiðis. Nota þær aðferðir við að kenna kennaranemum jafnframt. Ekki einblína á prófaúrlausnir heldur horfa á almenna færni, útfæra kennsluna þannig að horft sé á allan skólaferilinn hjá barninu í samfellu, ekki á einstök próf. Hætta árgangakennslu og auka áherslu á samkennslu árganga. Einstaklingsmiðun. Sitt hvort kerfið eftir aldurstigi sem kennaranemi er að sérhæfa sig til.

Fjölga þarf námskeiðum um agastjórnun, raskanir, foreldrasamstarf, einelti, fjölmenningu, jafnrétti og fatlanir. Skerpa þarf á áherslum í lífsleikni og auka áherslu á félagsfærni.  Kennsla nemenda með fjölbreytilegan bakgrunn og mismunandi þroska. Leggja áherslu á leiðtogahlutverk kennarans og setja inn stjórnunarkúrsa. Auka öryggi í starfi. Kennarar hafi kunnáttu og færni til að efla jákvæða sjálfsmynd nemenda, siðferðisþroska og vera læs á fólk og aðstæður. Kennsla í meðferð siðferðilegra og heimspekilegra álitamála. Fjölmenningaáhersla og siðgæði, tölvulæsi. Efla upplýsingatækni og upplýsingalæsi. Áhersla á að nemendur geti tjáð sig og rödd þeirra skipti máli.  Kennari þarf að hafa næmni til að bera, þekkja til aga- og bekkjarstjórnunar og getað lagt grunn að góðum bekkjaranda. PMT/SMT/SOS ætti að vera hluti af kennaranámi og þeir myndu fá verkfærakistu með úr námi. Samvinna við hagsmunasamtök um fræðslu (sbr. ADHD, Umhyggja o.fl.). Þeir þurfa þjálfun í samskiptum. Aukin krafa um aðkomu kennara í hvers kyns samskiptaerfiðleikum nemenda og jafnvel foreldra.

Auka áherslu á verkstjórn og skipulag í náminu einnig verkstjórn annars aðstoðarfólks í skólum s.s. stuðningsfulltrúa og skólaliða svo starfskraftar allra nýtist sem best. Kennari þarf að vera sterk fagleg fyrirmynd, fræðimaður, hlýr og góður hlustandi. Verkefnum kennarans hefur fjölgað: uppeldi, umönnun og fræðsla.

Kenna þarf „virka hlustun“. Horfa á heildarmynd menntunar og tengja skólana við raunveruleikann; hvernig nýtist menntunin?  Greina þarf með opnum huga hvað skiptir máli við kennsluna. Laða fram það besta í hverjum og einum.

Kandídatsár væri æskilegt áður en kennari teldist fullútskrifaður. Kennarastarfið þarf að verða samræmdara svo kennaramenntunin geti verið markvissari og draga megi úr sjokki nýliðanna á vettvangi. Mikið brottfall nýrra kennara er óásættanlegt.

Hætta með kennaranám í dagsskóla; allir í fjarnám og vinni úti í skólum sem aðstoðarfólk á námslánum eða með smá kaup. Dregur verulega úr kostnaði. Bætir kennaranám því löng og góð reynsla er fyrir því að leiðbeinendur í kennaranámi reynist mjög vel.

Handleiðsla og vettvangsnám. Herða þarf viðmið og auka kröfur til kennaranema í vettvangsnámi. Nýútskrifaðir kennarar kenni færri kennslustundir og hafi leiðsögukennara/mentor/handleiðslu fyrstu 1-3 árin. Leiðsögukennarar/ mentorar innan skólanna þurfa að fá markviss námskeið.Skilgreina og auka færni þeirra sem leiðbeina kennaranemum og nýliðum í skólunum. Styrkja þarf hlutverk deildarstjóra í því að halda utan um handleiðslu. Skýrari móttökuáætlun þarf v/ kennaranema á vettvangi. Aukið vægi á vinnustaðaþjálfun til að sannreyna hvort að starfið eigi við fólk.  Nemar þurfa að fara í fleiri en eina gerð af skólum. 

Að námi loknu. Kennarar þurfa að ígrunda störf sín (eigin naflaskoðun án viðkvæmni á að vera hluti starfsins) og geta speglað sig í augum annarra. Ekki bara samræður heldur fylgjast með hver öðrum í kennslu.

Kennari þarf að vera sterk fagleg fyrirmynd, fræðimaður, hlýr og góður hlustandi. Efla sjálfsstyrkingu kennara í starfi með bættri ímynd og breyttu viðhorfi. Efla skilning á margbreytileika nemendahópa og meðvitund um samspil skóla og samfélags.

Þjálfa þarf kennara í leiðum til úrbóta t.d. þegar árangur nemenda er slakur, að nýta rannsóknarniðurstöður á hagnýtan hátt.

Launasamningum kennara þarf að breyta svo framþróun geti orðið og um leið þarf að verða hugarfarsbreyting í samfélaginu. KÍ er orðið kjarabaráttufélag en ekki fagfélag eins og það var upphaflega stofnað til.

Horfa þarf á skólana sem samfélag. Skólinn í samfélaginu og samfélagið  í skólann.

Hugmynd um ráðgjafarvef í gegnum netið í samvinnu við kennaramenntunarstofnan-ir.  Slíkur vefur er í notkun í Skotlandi og góð reynsla af honum.

Hvernig má tryggja markvissa og skilvirka símenntun kennara?

Skilgreina þarf hugtökin símenntun og endurmenntun svo öllum sé ljóst við hvað er átt og hvort skilningur er sameiginlegur. Margt annað fellur undir símenntun en námskeið. Hafa þarf ákveðna símenntunarstefnu. Skilgreina þarf hlutverk, ábyrgð og skyldur allra sem í hlut eiga. Símenntun þarf að vera beggja hagur – starfsmaður að efla sig og skólinn að fá betri starfskraft. Símenntun er viðvarandi verkefni.

Tillögur til úrbóta. Skóli, kennarar og sveitarfélag þurfa að hafa sameiginlega sýn hvað símenntun varðar. Menning skólans og hugsjónir skólastjóra geta ráðið miklu um símenntun starfsfólks. Það tekur tíma að festa ný vinnubrögð í sessi. Auka þarf samstarf skólastjóra, sem þurfa að fylgja betur eftir verkstjórnarvaldinu varðandi sí-og endurmenntun hafa yfirsýn og bera ábyrgð.  Mikilvægt að skólar hafi heildaráætlun um símenntun og hver kennari geri sína eigin símenntunaráætlun í samstarfi við skólastjóra sem rími við símenntunaráætlun skólans. Nýta betur starfsmannafundi í endurmenntun og þróunarstarf (eykur áhuga kennara þar). Gera meiri kröfur til kennara um að nýtingu á 102-150 klst. til símenntunar, þær eru óvirkar hjá allof mörgum kennurum (sbr. TALIS niðurstöður). Þeir eru ætlaðir utan hefðbundins skólatíma en hafa færst um of inn á starfstíma skóla, ekki gott v/forfalla. Vitundarvakning þarf að verða meðal kennara varðandi eigin starfsþróun. Kennarinn setji sér sjálfur markmið og eigin áætlun í símenntun fyrir skólaárið og standi skil á henni gagnvart skólastjórnendum en ekki að skólastjóri setji hana einhliða. Setja inn sambærileg ákvæði um símenntun og hjá ökukennurum, en þeir verða að stunda lágmarks endurmenntun til að viðhalda réttindum sínum. Koma á föstum vinnutíma kennara allt árið þ.e. að undanskildu eðlilegu sumarleyfi það myndi tryggja aukna símenntun.

Auka þarf víðsýni strax í grunnnámi B.ed.; gefa þarf rými fyrir þverfaglegt grunnnám í B.ed. námi. Leiðum til markvissrar hagnýtingar símenntunar inn í kennarastarfið þarf að fjölga. Best væri að það væru innri hvatar sem stýrðu för, þ.e. að fólk fyndi þörfina fyrir starfsþróun til að verða betri í sínu starfi, en sýna þyrfti nauðsynlegt aðhald til að tryggja að henni sé sinnt. Hægt að hafa sérstaka símenntunardaga. Læra-geta-sýna. Hluti af starfi kennara t.d. að miðla innan skóla og jafnvel milli skóla. Námskeið, málstofur og smiðjur starfsfólksins sjálfs. Færa skipulag nær þjónustuþegum. Nýta betur fyrirlestra og námskeið sem eru send út í fjarkennslu til símenntunar. Virkja samstarf við atvinnurekendur/markað með þróunarstarf að markmiði. Símenntun kennara þarf að skila sér til nemenda. Aukinn sveigjanleiki í samspili starfsskylda og menntunarmöguleika hvetur til starfsþróunar.

Afnema lögverndun starfheitis. Það auðgar mjög skólastarfið að fá sjónarhorn annarra stétta inn. Svo setjum við kennaranemana út í skólana með þeim.

Sambandið þarf að skilgreina þörfina á öllu landinu fyrir sí- og endurmenntun kennara í samvinnu við sveitamennt.

Framboð. Tækifærin eru næg og einnig framboðið. Framboð þarf að vera fjölbreytt. Faggreinakennarar í smærri skólum á landsbyggðinni eiga erfitt með að finna símenntunarnámskeið við hæfi. Sumarnámskeið á höfuðborgarsvæðinu gætu mætt þessari þörf því faggreinafélögin eru mis virk.  Sömuleiðis mætti skoða hvort faggreinafélögin gætu sótt um styrki úr sjóðum KÍ til að halda námskeið fyrir faggreinakennara. Taka upp fleiri sumarnámskeið, sérstaklega stærri námskeið sem eru einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu.. Mjög mikilvægt að finna milliveg milli kennslufræðilegra námskeið og greinabundinna. Skólar sinni sjálfir kennslufræði. Örnámskeið skila litlu en þróunarverkefni sem standa yfir í lengri tíma skila mestu.

Kennarar þurfa símenntun í málumhverfi barna þ.e. netheimar, smáskilaboð og ótrúlegt  aðgengi þeirra að upplýsingum um allt milli himins og jarðar. Hvernig á að vinna úr þessum upplýsingum; hvernig umgöngumst við upplýsingar, greinum „góðar“ frá slæmum, fræðilegar frá og bulli o.s.frv. Ræða þarf siðferðilega og heimspekilega um bloggheima og heim fésbóka þannig að sú umræða sé uppbyggileg en ekki meiðandi. Þessi þáttur er ekki síst mikilvægur í símenntun kennara þ.e. hvernig kennum við eldri kennurum að nýta og þekkja netheima þannig að þeir standi nemendum sínum framar í þekkingu á þessu efni.

Virkja skólaskrifstofur og sambærilega aðila enn betur til að bjóða upp á endurmenntun, fyrirlestra o.þ.h. fyrir starfsfólk skóla, óháð sveitarfélagi, þar sem markmiðið er að lágmarka kostnað við  endur- og símenntun.

Skólar geta sameinast um fyrirlesara – dreift kostnaði. Stór sveitarfélög/umdæmi geta  sinnt  greinabundnum námskeiðum fyrir marga skóla. Taka upp gagnvirka miðlun milli skóla.

Kerfisbinda betur samstarf skólanna og akademíunnar. Gefa starfandi kennurum kost á að bæta við sig tveimur árum – gulrót?

Sjóðir. Aðgengi að sjóðum er mjög gott. Tengja þarf sjóði KÍ við endurmenntunar-stefnu sveitarfélaga og styðja við endurmenntun með þeim hætti enn frekar. Sveitarfélögin sæki sjálf um í símenntunarsjóð.

Skoða þarf hvort hægt sé að sameina úthlutun úr Vonarsjóði og Námsleyfasjóði (4% ) til að nýta fjármagnið sem best.  Sömuleiðis þarf að kanna möguleika á því að skóli (s.s. eins og lítill skóli á landsbyggðinni) sæki um styrk úr Vonarsjóði fyrir félagsmenn og haldi námskeið fyrir alla kennarana því í mörgum tilvikum eru þessir félagsmenn KÍ ekki að nýta sér styrkina. Vonarsjóður ætti að vera hrein viðbót við 150 klst. Þvælast fyrir okkur þessar mælingar.

Hindranir. Eldra símenntunarkerfi var launatengt, ekki mjög stefnumiðað. Vantar ytri hvata, sbr. launaflokkahækkanir, sem teknar voru út úr kjarasamningum 2001 eða skipa aðrir þættir meira máli? Vantar ábyrgð hjá skólunum í þessu efni til að nota betur matstæki og niðurstöður rannsókna til þess að meta þörf fyrir starfsþróun.

Peningalegi þátturinn heftir símenntun. Kennarar skrá sig á námskeið en mæta svo ekki. Hver á að borga? Skólar, sveitarfélög, háskólar? Símenntun/endurmenntun kennara þarf að skipuleggja og undirbúa enn betur en nú er gert og t.d. að fara með námskeiðin út fyrir borgarmörkin í enn meira mæli en nú er gert. Með því móti verði meiri samhugur og samstaða þeirra sem námskeiðin sitja og enginn hætta á að þátttakendur fari að sinna ýmsum persónulegum málum eins og gerist þegar námskeiðin eru haldin í höfuðborginni. TALIS könnun hefur leitt það í ljós að stór hópur kennara uppfyllir ekki þær skyldur sem honum ber að þessu leyti.

 

 

SAMANTEKT NIÐURSTAÐNA OG TILLAGNA FRÁ UMRÆÐUHÓPUM Á SKÓLAÞINGI SVEITARFÉLAGA  2. NÓV. 2009

Geta sveitarfélög og skólar aukið gæði og þjónustu í núverandi árferði? var sú spurning sem lögð var til grundvallar í umræðuhópum fyrir hádegi. Undirspurningar voru tvær: Hvernig má endurskipuleggja starf skóla án þess að rýra gæði eða þjónustu og: Hvernig má tryggja að fagleg og rekstrarleg forysta í skólamálum haldist í hendur. Umræðuhópar eftir hádegið fjölluðu um Hvernig kennara og kennaramenntun þurfum við? með þessum undirspurningum: Hverjar eiga áherslur í kennaramenntun og kennarastarfi að vera og Hvernig má tryggja markvissa og skilvirka símenntun kennara.  Meðfylgjandi eru samanteknar niðurstöður og tillögur hópanna sem störfuðu fyrir hádegi.

I.          HVERNIG MÁ ENDURSKIPULEGGJA STARF SKÓLA ÁN ÞESS AÐ RÝRA GÆÐI EÐA ÞJÓNUSTU?

LEIÐARLJÓS:  SAMVINNA, SAMEIGINLEG SÝN, MANNAUÐUR, SAMEIGINLEG ÁBYRGÐ.

Skilgreina þarf betur þjónustuhlutverk skólanna/grunnþjónustu sem veita á og aðgerðartengja verkefni. Þá þarf að skilgreina ábyrgð allra sem að skólunum koma. Eftirfylgd þarf að vera markviss með þeirri stefnumótun sem svf. og skólar setja fram. Horfa þarf heildstætt á þá þjónustu sem veitt í er í leik- og grunnskólum og forgangsraða henni. Gæðastýring er nauðsynleg innan stofnunar og breytingar þurfa að koma innan frá. Skoða þarf styrkleika og veikleika í skólastarfi með opnum huga og beina sjónum að námi nemenda, líðan og ánægju[1].  

Skólaárið/starfstími. Stytta skólaárið hjá unglingum og lengja hjá þeim yngri (ef vill) en það má gera með því að samþætta skólastarf við annað barna- og unglingastarf. Hægt er að hefja skóladaginn seinna en það myndi m.a. draga úr þörf fyrir lengda viðveru. Þá má auka samkennslu árganga og sameina þá í fámennum skólum í auknum mæli. Stytta má daglegan opnunartíma leikskóla og lengja sumarlokun þeirra.

Bekkir/námshópar. Fjölga þarf í bekkjum. Áhöld um það hvort stækkun bekkja hefði áhrif á gæði en margir lögðu það til sem hagræðingarleið[2]  Hægt er að afnema bekkjarkerfi, hafa mörkin fljótandi=> aukin einstaklingsmiðun þannig að nemendur gætu t.a.m. farið hraðar í gegnum grunnskólann. Í því skyni mætti einnig auka aldursblandaða kennslu. Auka þarf verulega samstarf milli skóla og sveitarfélaga. Sameina þarf skóla/unglinga-deildir/valgreinaframboð og sérgreinakennslu. Aukið val getur leitt til sparnaðar. Hópkennsla í tónlistarskólum.

Starfshættir og stjórnun. Auka þarf samstarf milli ríkis og sveitarfélaga. Þá er stuðningur sveitarstjórna og skilningur á starfi skóla grundvallaratriði. Greina þarf og meta núverandi stjórnunarfyrirkomulag í skólum[3]. Ekki ólíklegt að hægt sé að fækka stjórnendum án þess það komi niður á gæðum skólastarfs.

Hvert samfélag þarf að meta sameiginlega hvað hægt er að gera og tefla þarf fram starfsfólki til að koma fram með lausnir. Nýta betur þá þekkingu sem til er í skólum og samráðsvettvang eins og skólaráð og foreldrafélög. Hægt er að aðlaga skólana betur að samfélaginu. Verum óhrædd við að líta okkur nær og virkja þann mannauð, þá þekkingu og þau bæði sem búa í nærsamfélaginu, umhverfinu, hjá félagasamtökum og foreldrum. Hvetja til sjálfboðaliðastarfs.

Þegar harðnar á dalnum þá skapast tækifæri og skólafólk er tilbúið í ýmislegt í svona árferði. Gæði geta aukist í kreppu vegna stöðugleika í starfsmannahaldi; menntaðra fólk í skólum. Of mikil aðgreining er milli kennara og annars starfsfólks grunnskóla; hlusta þarf betur á raddir annars starfsfólks. Útvíkka má starfslýsingar og endurskoða starfssvið. Margir geta tekið við fleiri verkefnum.  Fagþekkingu má auka með aukinni fjölbreytni starfa/fjölgun starfsheita. Samnýta má í auknum mæli starfsfólk milli stofnana. Kjarasamningar og lög mega ekki að koma í veg fyrir aukinn sveigjanleika og endurskipulagningu starfshátta. Vinnutímaskilgreining grunnskólakennara kemur hindrar störf hans á forsendum leikskóla þrátt fyrir vilja til samvinnu. Losa þarf um slík hamlandi ákvæði og gera þennan möguleika raunhæfan.  Fjölbreytileiki í skólastarfi sýnir að kerfið er ekki hamlandi. Endurskoða sundkennslu, ljúka henni t.d. í 7. bekk.

Stofna svæðisráð og vinna þannig saman á stærri svæðum. Samnýta má betur upplýsingar á milli svæða/landshluta og hugsa meira sem „netverk“; Með auknum hlut netskóla í dreifðari byggðum má spara í mannahaldi, t.d. í tungumála- og raungreinakennslu, sbr. reynslu af Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Endurvekja þarf „farkennarastarfið“ við innleiðingu á sérstækum verkefnum (sbr. ART).

Fræðsluskrifstofur hafi umsjón með að setja upp námskeið fyrir svæðin.  Virkja enn betur endurmenntunarsjóð hjá KÍ til að viðhalda stigi endurmenntunar. Jafnvel útdeila til sveitarfélaga til að styrkja stoðir endurmenntunar. Nýta reynslu milli skóla innan sveitarfélaga, milli svæða og milli landa.  Efla símenntun með netkennslu. Lítum okkur nær varðandi starfsþróun (jafningjafræðsla) og lærum hvert af öðru - „best practices“ [Sbr. Curriculum of Excellence í Skotlandi].

Kennsluhættir. Samtvinna þarf listkennslu betur inn í almennt nám. Samræða þarf að eiga sér stað milli tónlistarskóla og annarra listaskóla en einangra ekki umræðuna við tónlist. Þá má samþætta tómstundastarf inn í skólastarfið. Verum óhrædd við að líta upp úr bókinni öðru hverju og brjóta upp þetta hefðbundna. Mikilvægt að vera opinn fyrir ólíkum leiðum og hagnýta rannsóknaniðurstöður betur í þágu skólastarfs.

Sameiginlegt valgreinaframboð; aukna samvinnu á milli skóla tímeiningar í skólastarfi; kennslustund er ekki föst, óbreytanleg eining. Viðhalda þarf starfsgleði í skólum, vinna með líðan og starfsánægju. Fer of mikið fjármagn í aðstöðu og búnað (ytra umhverfi) á kostnað innra starfs. Endurskipuleggja/-hugsa sérkennslustuðninginn til að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni. Má e.t.v. mæta þörfum nemenda með sérþarfir betur með því að styrkja sérhæfingu og efla sérdeildir?

Rekstur. Skýr skólastefna sveitarfélags þarf að vera í samræmi við rekstrarramma. Fylgja þarf eftir flæði fjármuna og greina hvort þeim sé varið í rétta hluti. Skoða reiknilíkan skóla og svigrúm til að færa á milli launa og rekstrar og hvort sveitarfélög veiti nægilegan sveigjanleika innan rammans.  Mikill munur er á rekstrarkostnaði milli einstakra skóla og því hljóta að vera tækifæri til hagræðingar. Standa þarf vörð um starfsemi lítilla skóla á landsbyggðinni en þar reynist erfitt spara í stórum liðum eins og skólaakstri, mötuneyti og starfsmannahaldi. Efla þarf kostnaðarvitund, ábyrgð og þátttöku starfsfólks. Samþætta má skólastarf betur t.d. með samrekstri skóla. Sameina má fámenna skóla, meira að segja í stórum sveitarfélögum, til að tryggja stærðarhagkvæmni og nemendum kennara með nauðsynlaga fag- og sérþekkingu.

Hagræða má í tengslum við vettvangsferðir; líta sér nær og nýta nærumhverfið í styttri ferðir í stað þess að fella alfarið niður. Auka samstarf við foreldra vegna vettvangsferða og félagsstarfs nemenda. Nota grenndarkennslu meira í nærsamfélaginu. Auka samstarf við eldri borgara og elstu bekki vegna frímínútnagæslu. Endurskipuleggja mötuneytismál og lengda viðveru ná þar fram hagræðingu, hækka gjaldskrá.

Skólabyggingar eru víða ónýttar auðlindir. Margir skólar standa tómir marga tíma á dag en unnt er að samnýta aðstöðuna með ýmsu öðru samfélagslegu starfi.

Vinnutími-laun. Endurskoða þarf innra fyrirkomulag kjarasamninga svo skólastjórar fái aukna möguleika til að skipuleggja vinnutíma starfsfólks. Fækka þarf stjórnendum. Vinnutímaskilgreining kennara þarf að vera eins og annarra opinberra starfsmanna (8-16/17 og vinnuskylda í 10,5 mánuði). Kjarasamningar kennara hindra nauðsynlega þróun skólastarfsins sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Setja þarf skilgreinda símenntunartíma kennara (102-150 klst.) inn í vinnurammann. Hvernig þeim tímum er varið, nýting þeirra og eftirfylgd skólastjóra þarf að greina m.a. í ljósi niðurstaðna TALIS, sem gefa til kynna að fjöldi kennara uppfylli ekki þessar skyldur sínar þrátt fyrir að fá greiðslur fyrir.[4]

Hefja þarf samstarf við Vinnumálastofnun við nýráðningar. Lækka laun í 80% í 2 ár ef fækka þarf fólki og nýta atvinnuleysisbætur að 20 prósentum. Hækka þarf kennsluskyldu í 28 stundir úr 26 (aftur)[5]. Hækka kennsluskyldu skólastjóra tímabundið í samráði við SÍ. Færa má rök fyrir því að hafi skólastjóri enga kennsluskyldu fjarlægist hann faglegt starf.

Setja  upp reynslubanka á upplýsingavef sambandsins um „best practices“ í sveitarfélögum í tengslum við hagræðingaraðgerðir í þessu samhengi.

 

II. HVERNIG MÁ TRYGGJA AÐ FAGLEG OG REKSTARLEG FORYSTA HALDIST Í HENDUR?

LEIÐARLJÓS: STUÐNINGUR, SAMRÁÐ, JÁKVÆÐNI, SEIGLA, SKILNINGUR.

Vitundarvakningu þarf meðal sveitarstjórnarfólks á skólamálum. Sveitarstjórnarmenn þurfa að axla ábyrgð á erfiðum ákvörðunum en vantar oft þekkingu, reynslu og jafnvel áhuga á málaflokknum. Tryggja þarf að sveitarfélög fari eftir þeim lögum sem gilda um starfsemi skólanna en jafnframt þarf að auka sveigjanleika og svigrúm í framkvæmd gagnvart lögum, reglugerðum og stéttarfélögum.

Sveitarstjórnarmenn og forstöðumenn skólanna tali sama tungumál, vinni heildarmyndina saman og forgangsraði á grundvelli sameiginlegrar sýnar í skólamálum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn afhendir gjarnan valdið til skólanna án nauðsynlegs aðhalds eða gagnrýni. Mikil munur er á framkvæmd eftir stærð sveitarfélaga. Sveitarstjórnarfólk í dreifðari byggðum/minni sveitarfélögum er í fullu starfi og lítill tími gefst til að setja sig inn í mál og það regluverk sem fylgir ólíkum málaflokkum.  Nýta þarf betur rafræna stjórnsýslu og auka samvinnu milli sveitarfélaga um góðar leiðir. Námskeið sambandsins nýtast í þessu samhengi.

Ákvarðanir á ekki að taka of miðlægt en þó kallar kreppan á meiri miðstýringu, sérstaklega fjárhagslega. Öll endurskoðun verður að koma innanfrá. Hvert sveitarfélag/hver skóli þarf að finna sína leið og sína lausn og blómstra á eigin forsendum. Það þarf að auka við og bæta rekstrarlega þekkingu sveitarfélaga og starfsfólks skóla. Fag- og rekstaraðilar verða að vinna saman ef árangur á að nást. Eru þeir skólar sem koma vel út dýrari í rekstri? Ytra og innra mat segir til um gæði. Áherslan þarf að vera á innihald frekar en umbúðir. Er okkar faglega skólastarf í hættu vegna minna fjármagns? Hvernig spila faglegir og rekstrarlegir þættir saman? Skóli án aðgreiningar er mjög dýr stefna. Kennarar vilja vinna starf sitt betur en tímaskortur kemur í veg fyrir það.

Skoða þarf gaumgæfilega afleiðingar fyrirhugaðra breytinga á skólastarf og ástæður þeirra. Fræðsla, samvinna, samráð og sameiginleg ábyrgð er forsenda. Samkomulag um gæði.

Stefnumótun í samráði við hagsmunaaðila og binda stefnumarkmið í aðgerðaáætlun. Fræðslunefnd vantar oft þekkingu til að innleiða stefnuna.  Ekki nægjanlegt bakland og eftirlit. Vanda vel val í skólanefndir þar sem samhljómur er um forgang menntunar. Meiri aðkoma sveitarfélaga að eftirliti er jákvæð. Í mörgum tilvikum, sérstaklega í minni sveitarfélögum, getur samrekstur skilað góðum árangri.

Mikilvægt að skilgreina betur og meta mismunandi stærðir grunnskóla landsins til að efla stoðir ólíkra skólagerða landsins. Láta ekki kreppuaðstæður fækka skólum á landsbyggðinni. Ekki mismuna nemendum eftir búsetu. Ef skerðing vikustunda, um t.d. 2 stundir á viku kæmi frá menntamálaráðuneyti, væru allir við sama borð.

Menntastefnan Skóli fyrir alla er kostnaðarsamari en þegar sérskólarnir voru við lýði.

Stjórnun og rekstur. Skólastjórnendur eru faglegir forystumenn og þurfa stuðning frá sveitarstjórn. Styrkja þarf menntun og þjálfun stjórnenda (launuð leyfi). Ekki er hægt að ætlast til þess að þeir hafi mikla rekstrarþekkingu og því þarf að tryggja aðgengi skólastjórnenda að rekstrarráðgjöf. Stjórnarteymi með fjölbreytta þekkingu er vænlegra til að skila árangri en einn stjórnandi. Gera þarf skólastjórn ábyrga fyrir rekstri. Færa rekstrarlega ábyrgð í auknum  mæli til skólans/skólastjórnenda og um leið að gera þeim kleift að fylgjast með rekstrinum frá degi til dags t.d. með góðu bókhaldskerfi. Rekstrarþekking verður að hafa meira vægi og auka þarf vægi stjórnunar, rekstrarstjórnunar og fjármálalæsis í kennara- og stjórnendanámi í kennaraháskólum (símenntun). Hafa þarf fjármálamenntaða starfsmenn í rekstri skólans. Rekstrarstjórum þyrfti að fjölga sem vinna í samstarfi við skólastjórnendur. Skoða betur starfssvið og hlutverk (skóla-)stjórnenda innan hverrar skólaeiningar. Skoða þarfir og endurskilgreina hlutverk þeirra. Tryggja þarf betri skilning allra starfsmanna á hlutverkum einstakra stjórnenda og hverjir bera ábyrgð á faglegum rekstri annars vegar og rekstrinum sjálfum hins vegar. Gera þarf úttekt á fjölgun stjórnenda og hver reynslan af þeirri fjölgun hefur verið. Færa má stöðugildi af skólaskrifstofum inn í skólana. Tilhneiging til að fá bara nýjan stuðningsfulltrúa ef vandamál koma upp (sparnaður sérfr.þj).

Setja má einn leikskólastjóra yfir 3-5 smærri leikskóla. Leggja niður starf aðstoðarleikskólastjóra. Deildarstjóri kæmi í þeirra stað með sameiginlega ábyrgð.

Fjárlagarammar settir í skólum og stjórnendur þurfa að halda sig innan rammans. Auka þarf eftirlit með nýtingu fjármagns. Mikilvægt að auka meðvitund almennra starfsmanna um kostnað. Kynna fjárhagsáætlanir og ársreikninga fyrir starfsfólki skóla. Koma hreint fram varðandi niðurskurð. Hafa samráð um tillögur til hagræðingar og niðurskurðar við starfsfólk/foreldra.

Skoða samnýtingu búnaðar/tækja/mannauðs o.fl. þátta innan sveitarfélags. Draga úr skýrslugerð/skráningum svo starfsmenn geti meira verið með nemendum.[6]

Vinnutímaskilgreining. Setur kjarasamningar grunnskólakennara starfinu miklar skorður...eða er þetta klisja? Snýst málið jafnvel frekar um að traust ríki milli aðila? Samræða hagsmunaaðila þarf að eiga sér stað og aukið samstarf við KÍ. Allir þurfa að koma upp úr skotgröfunum – ná sáttmála. Það eru girðingar í kjarasamningum sem eru til bóta núna. Endurskoða þarf vinnuramma kennara með tilliti til 102-150 klst. endurmenntunar. Þá þarf að setja inn í vinnutímaskýrslu skólaársins og þar með skilgreina endurmenntun frekar innar skólaársins. Það þarf að vera virkur stuðningur og hvatning við símenntun í skólunum og kennarar að taka þann þátt vinnuskyldu sinnar af alvöru og ábyrgð.

 

 

 

 



[1] Niðurstöður kannana (Umboðsmaður barna, Rannsóknir og greining 2010)  og alþjóðlegra rannsókna (HBSC, 2010) benda til þess að börnum líði almennt betur nú en fyrir kreppu og ýmis streitueinkenni séu á undanhaldi.

[2]  Í nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að á Íslandi eru fæstir nemendur á hvern kennara, aðeins 10. Þeir voru 12,7 árið 2000. Sjá frétt á vef sambandsins frá 20.10.10.

[3] Sjá m.a. niðurstöður alþj. rannsóknar á stöðu og viðhorfum kennara og skólastjóra (TALIS) frá 2009. http://www.namsmat.is/vefur/eydublod/talis/1talis_island.pdf

[4]  Sjá m.a. niðurstöður alþj. rannsóknar á stöðu og viðhorfum kennara og skólastjóra (TALIS) frá 2009. http://www.namsmat.is/vefur/eydublod/talis/1talis_island.pdf

[5] Í nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að að á Íslandi er hlutfall kennslutíma af heildarvinnutíma grunnskólakennara það þriðja lægsta í heiminum (37,3%).  Sjá frétt á vef sambandsins frá 20.10.10.

[6]  Í nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að á Íslandi er hlutfall kennslutíma af heildarvinnutíma grunnskólakennara það þriðja lægsta í heiminum (37,3%).  Sjá frétt á vef sambandsins frá 20.10.10.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?